Hugbót | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hugbót

Fyrsta ljóðlína:Herra Jesús hreinn og trúr
bls.103
Bragarháttur:Hugbótarlag
Viðm.ártal:≈ 1600
Tímasetning:1612
1.
Herra Jesús hreinn og trúr
í hjarta byggi mínu
svo hrynja mætti af hvörmum skúr
með heitri ástar línu,
svo burtu flýi syndin súr
fyr sætu orði þínu,
svo gleðjist sál í holdi hér
himna faðirinn gefi það mér
eg forðist fár og pínu.

2.
Mig hefur fangað meinlegt stríð,
mun því fátt til bóta,
lifað hef eg svo langa tíð
að lýtin aldrei þrjóta;
kennt óvandað kvæðasmíð
með kallsi og hæðni ljóta;
hér með blindað hjartað mitt,
herrann Jesús gefi það kvitt
og láti mig líknar njóta.

3.
Aumlega hefur mig veröldin villt
af veginum lífsins klára,
flestu öllu fyrir mér spillt,
sem fleiri hún kann dára;
þó væri þeim nú að vakna skylt
sem vel eru komnir til ára;
að kenna heimsins köldu ráð,
Kristur Jesús, gefi oss náð
fyr sína pínu sára.

4.
Fer eg nú rétt sem sauðurinn sá
sem sér kann ekki að bjarga
þegar hann hvarflar hjörð í frá
og hittir óbyggð marga;
öngvu skjóli mæta má
í millum grimmra varga.
Góði hirðir, gæt þú mín,
græðarinn Jesús, lömbum þín
láttu ei leónin farga.

5.
Svo er eg líkur syninum þeim
er sínu góssi eyddi
með saurlifnaði og synda keim
svo sem að lystin beiddi,
þenkti ei fyrr til föðurs síns heim
en fárlegt hungrið neyddi;
í útlegð slíka eg hefi hitt
svo ei má eg nefnast barnið þitt
nema Jesús aftur leiddi.

6.
Afrækt hef eg öll þín ráð,
minn elsku faðirinn hreini,
margt eð góða mjög forsmáð
meir en eg það greini;
hefur mér þvílík heimskan bráð
svo hættlega komið að meini.
Utan það græði Jesús dyggð
endalausa bæra eg hryggð
með sáru sútar kveini.

7.
Forþént hefi eg fyrir þá smán,
faðirinn, þína reiði;
eg hefi straffað allt þitt lán
en öngvar þakkir greiði,
verið svo allrar elsku án,
af því trú eg það leiði,
hjartað mitt er heldur kalt,
herrann Jesús græði það allt,
blíðlega eg þess beiði.

8.
Sálin mín af syndum mædd
sárt mun hún hefndum kvíða,
við þann dapra dauðann hrædd
og dóms áfellið stríða
utan hún verði áður grædd
fyr Jesú nafnið fríða.
Hann einn trú eg hennar sár,
hræðslu, sorg og gjörvallt fár
bæta en brjóstið þýða.

9.
Nú skal leita að læknings bót
og lausnarans vitja náða,
biðja hann af hjartans rót
að hefta illsku bráða
svo eflast mætti iðran fljót
og er þá gott til ráða.
Herrann Jesús, hjálpari minn,
hingað sentu anda þinn
að blíðka brjóstið þjáða.

10.
Heilagur andi huggar mest
hrellda sálu og móða,
klára trúna kennir best,
kveikir elsku góða;
öngvan fáum vér æðra gest
því auma gjörir hann fróða.
Herrann Jesús himnum af
hingað sendi og sínum gaf
huggarann þennan þjóða.

11.
Kæri faðir, eg kalla nú
fyr kraft hins heilaga anda:
Auk þú mér þá ást og trú
að ei megi flærðin granda.
Son þinn góðan sendir þú
að svipta oss öllum vanda.
Jesús gjörðist mannleg mynd,
meinlaus leið fyrir vora synd
ánauð allra handa.

12.
Herra Guð, eg þakka þér
af þýðum hjartans grunni
fyr ástgjöf þá er af öllum ber
og enginn trú eg það kunni
að skilja rétt sem skyldugt er
eður skýra það með munni
að þú gafst oss Jesúm Krist
með allri náð og sæluvist
af innstum elsku brunni.

13.
Fyrir það höfum vér fengið nægð
og flest öll lífsins mæti,
á hörðum dómi hljótum vægð,
hvör mann að því gæti,
öðlunst þar með æðsta frægð
og arf í himna sæti.
Alls kyns gæði öndin fær,
Jesús er vor bróðir kær,
kristna trú eg það kæti.

14.
Guð vor faðir, skjöldur og skjól,
skaparinn allra kinda,
þú sem gjörðir heimsins hjól,
hafið sem loft og vinda,
lætur skína líknar sól
að lýsa heiminn blinda;
bið eg fyr Jesú blíða náð,
blessan þína og guðlegt ráð
frá háska oss öllum hrinda.

15.
Lifandi Guðs son, líknarbraut,
læknirinn allra meina:
Hlýðni þinnar heimurinn naut,
hjálpina fékk hann beina,
syndum öllum svipt er braut,
sannlega má það greina.
Gef þú oss þinn gæsku frið,
græðarinn Jesús, þess eg bið,
himna ljósið hreina.

16.
Heyr þú eð góða hugarins traust,
heilagi guðdóms andi,
svo sálin verði í hrelling hraust,
að hugga, það er þinn vandi;
er þín byggðin efunarlaust
í innsta hjartans landi:
Gleð þú oss í allri neyð
fyr Jesú Kristí pínu og deyð
svo angrið aldrei grandi.

17.
Þér fel eg á hendi, faðirinn sæll,
fólkið og eigu mína;
ótrúr heimur er ekki dæll
með alla hvekki sína;
af því krýp eg, aumur þræll,
undir blessan þína.
Láttu oss að lyktunum fá,
lifandi Jesús, sæluna þá
sem aldrei náir að dvína.

18.
Þá sundur skilur þú sauði og kið
sjálfur á efsta dómi
gefðu eg verði á hægri hlið,
himnakóngurinn frómi,
þó lítt hafi eg þar leitað við
lífs í góðu tómi.
Sæti Jesús, sigurinn þinn
sé þá hlífðar skjöldurinn minn
svo aldri eyðist sómi.

19.
Heilagur andi, hjálpin góð,
hrærðu tungu mína,
því má kalla kristin þjóð
kvæðið Hugbót sína;
orðasnilld er ekki fróð,
óðurinn skal því dvína.
Gef þeim, Jesús, gleðinnar stund
sem girnast þennan mærðar fund
svo eyðist angur og pína.

20.
Jesús nafni ann eg best,
Jesús bið eg mín gæta,
Jesús veit minn allan brest,
Jesús trú eg hann bæta,
Jesús hefur oss elskað mest
því öngvan vill hann græta;
þiggi Jesús þetta smíð,
þér sé heiður árla og síð,
herranum himna stræta.

(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 103–105)