Hugvekja | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hugvekja

Fyrsta ljóðlína:Sjálfur sannleiks andi
bls.100
Bragarháttur:Kansóna (ljómalag)
Viðm.ártal:≈ 1600
1.
Sjálfur sannleiks andi
sendur í heiminn þennan
að straffa synda safn.
Það er hans vild og vandi
veginn til lífs þeim kenna
sem dýrka Drottins nafn.
Hann vekur oss upp ef viljum vér að því gæta,
veit eg þess enginn kann með réttu að þræta
að vér skulum fyr iðran lifnað bæta
ellegar hefndar reiði Guðs að mæta.

2.
Guðdóms gæskan hreina
gjörir við kristnar þjóðir
sem faðir og fóstra trú
eða svo glöggt að greina
sem góðlynd hjartans móðir
hirtir börn og hjú,
lokkar fyrst með ljúfum elsku ráðum,
litlu síðar ógnar orðum bráðum
en fyrir það vér þetta tvennt forsmáðum
þrífur hann vönd og refsar, þó með náðum.

3.
Það er hið þyngsta efni
þá vér skaparann góða
fáum með fullu styggt
svo að með heift hann hefni;
hjartað hið þolinmóða
úr hófi mun þá hryggt;
á iðranarleysi er honum mestur leiði,
til örvæntingar veguna trú eg það greiði;
vari sig hvör, að vísu, eg þess beiði,
voðalegt er að bíða Drottins reiði.

4.
Æðri virðing engin
oss má bera til handa
en heita herrans börn;
þó höfum vér helst til lengi
hætt í þennan vanda
að forsmá föðurinn vorn.
Svo er nú komið, hann kallar hátt með æði,
kann hans enginn stöðva ógnarbræði,
fleygja skal þeim í fjandans kvalir og mæði
sem finnst ei skrýddur hreinu brullaups klæði.

5.
Hef eg það mark á heimi,
hann er kominn á enda,
því spillist öll hans art;
svo sem í svefni dreymi
sé eg nú hvar vill lenda,
koma mun kallið snart,
annaðhvört með efsta dóms atkvæði
ellegar plágu, fárlegu skaðræði,
sem það Nóa synda hefndar flæði,
vér sjáum það glöggt og heyrum líka bæði.

6.
Áminningar allar
undan lætur ganga
sem forðum faðirinn trúr;
með klárum orðum kallar,
Kristur á dyrnar bangar
svo skelfur mold og múr.
Á himni og jörðu hræðileg undur sýnir,
hita og birtu sólin mjög svo týnir,
að vísu ræð eg, vaki þér bræður mínir,
veraldar skemmdin Jesúm Guðs son pínir.

7.
Eyðing Jórsala borgar
eftir táknin stóru
með alls kyns undrum kom;
oss gefur efni sorgar,
eins og vær þeir fóru
að forsmá friðarins Róm.
Jesús Guðs son gaf þeim biðstund langa,
Gyðingar fengu áminning svo stranga,
öngvan þyrfti eftir slíku að langa,
alleins tekur í þessu landi að ganga.

8.
Oflangt er nú að greina
undur og býsnin fleiri
sem fréttast firr og nær;
öll hafa þýðing eina,
engin læst sem heyri
þó kalli faðirinn kær.
Á einu ári víst í voru landi
versta óráð bruggaði óhreinn andi
að sínu lífi sjálfur margur grandi,
sérhvör bið eg að hræddur og bljúgur standi.

9.
Veit eg voru landi
veittan mestan sóma,
það er þó allra yst;
hér kom heilagur andi
með hreinum orðsins ljóma
og kenndi oss Jesúm Krist.
Hafið er Ísland himins á dýrðar palla,
til helvítis með sneypu mun það falla
nema vér lærum Níníve breytni alla,
náðugan Guð af hjarta til vor að kalla.

10.
Hér eru hirðar góðir,
hér eru biskups stólar,
kirkjur í hvörri krá,
klerkar á kenning fróðir,
komnir í landið skólar
svo lýðurinn læra má.
Valdsmenn taka nú visku nóga að fanga
ef vildu það eftir ráðunum Drottins ganga
en fyr það vér elskum meir hið ranga
allar stéttir þurfa ógnan stranga.

11.
Valinn til sálusorgar,
settur í hæstan vanda
einn andlegur biskup er;
sá þeirra blóð skal borga
og bráðlegan reikning standa
sem villt af veginum fer;
því má hann ei láta mannvirðingar hlífa,
mútur og gáfur verður frá sér drífa,
með skelfing synda sárin upp að rífa,
sé hann ei hræddur ríkismennina að ýfa.

12.
Einn veg prestar allir
eru í þennan máta
Jesús umboðs menn,
kjörnir réttu kalli,
Kristum skulu þeir játa
en ógna syndum senn.
Þó herra og kónga hafi menn sér á móti
heims illgjörðir trú eg að straffast hljóti,
en víst mun oss að virðingarnar þrjóti,
vóru svo margir lamdir fyrir það grjóti.

13.
Vér viljum hirðar heita
og halda en æðstu sæti
veraldar virðing með,
dæmunum Drottins neita,
dramba af eftirlæti
en elska auð og féð.
Svo fáum vér haldið hylli ríkismanna
vér hræðunst oft að votta þeim eð sanna,
sálarmorð er syndir ekki að banna,
svikulir þrælar versta plágu kanna.

14.
Því bið eg af hjarta hreinu
hirða og bræður mína
í nafni Drottins nú
að verðum allir á einu
og aldrei látum dvína
að kalla af klárri trú.
Satan gamli sér það líður að dómi,
svikarinn óður berst í litlu tómi,
styggjum hann með hvellum orðsins hljómi,
hinum trúlyndu vís er dýrð og sómi.

15.
Svo hefur sett til varnar
sjálfur skaparinn þjóða
kóng í heimi hér
að sjá til sinna barna
og siðuna rétta bjóða
friðinn svo fengjum vér.
Stjórnar valdinu stöndum ekki á móti,
strangan reikning trú eg það gjalda hljóti,
leggja á straffið lögin svo enginn brjóti,
lofs og æru góðir menn að njóti.

16.
Því skal valdsmenn vanda
og velja að heiðri sönnum
og hjartans hreinnri trú
í slíku starfi að standa,
stjórna kristnum mönnum,
þó náist það ekki nú.
Með fénu taka nú flestir völdin kaupa,
fær þau hvör sem meira vogar að raupa,
fyr gull og háfur, gjafirnar silfurstaupa
girnist margur í vandan sess að hlaupa.

17.
Nú bið eg Guð að náða
nákvæmd stjórnarmanna
og líta á laganna rétt.
Auður á öllu að ráða,
Ísland má það sanna,
útvalin er engin stétt.
Peningur leysir, peningur líka dæmir,
peningur margan bófann heiðri sæmir,
peningalausir plaga að kallast slæmir,
peningagjaldið landið að gæðum tæmir.

18.
Enn forsvar fær að minna
fátæk þjóð í landi
sem bæði er sár og sjúk.
Sé eg því öngvan sinna
þó soddan lýðum grandi
bæði frost og fjúk.
Fyr hungur og fátækt hjónin verða að skilja,
hrakin í sundur móti Drottins vilja
en frillulífi og hórdóm margir hylja
hafi sá fé sem beiðir þess að dylja.

19.
Hér gjörast háska dómar,
hvatskeytlegir úr máta,
helst um hjónaband.
Þegar einn af illsku rómar
að hann vilji skiljast láta,
það gengur honum í hand.
En lögmál Drottins ljóst mun annað hljóða
að leggi eigi þvílíkt tryggðamál fyr óðal;
valdsmenn bið eg að virði mér til góða,
vil eg þeim slíka villu mest forbjóða.

20.
Þó hafi þeir mannvit meira,
mælsku og orðaprýði;
Guð hefur gefið það allt.
Þess sem þágu þeir fleira
þarfara sé þeir líði
og hyggi að hjólið er valt.
Veit eg í dag að valdið er þeim í hendi,
víst er á morgun tignin frá þeim vendi;
sjálfur Davíð sætleik dyggða kenndi,
Salomon biður að Guð sér vísdóm sendi.

21.
Hugvekja skal heita
hátturinn orðaljósi,
sá er eg samdi hér.
Rétt vil eg öngvan reita,
ráði nú hvör og kjósi
að hafa hana heim með sér.
Reikna eg þann sem reiðist kvæði mínu
réttan óvin Jesú Kristí pínu.
Guðs börn munu það geyma í hjarta sínu,
gefðu, Drottinn, framgang orði þínu.

(Vísnabók Guðbrands 1612; útg. 2000, bls. 100–103)