Þrettándi vikusálmur: Laugardags morgun | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vikusálmar Þorvalds Magnússonar út af bók doktors Johannis Lassenii 13

Þrettándi vikusálmur: Laugardags morgun

VIKUSÁLMAR ÞORVALDS MAGNÚSSONAR ÚT AF BÓK DOKTORS JOHANNIS LASSENII
Fyrsta ljóðlína:Almáttugur Guð alsherjar
bls.B5r (bls. 41–45)
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) ferkvætt aabbccdd
Viðm.ártal:≈ 1725
Flokkur:Sálmar
1.
Almáttugur Guð allsherjar,
einn rétt faðir gæskunnar.
Eg aumur hlaðinn sekt og synd,
saurguð og vesæl skepnukind,
meðkenni þessa morgunstund
miskunn þína á alla lund,
og margföld gæði gefin af þér,
góði herra, og auðsýnd mér.
2.
Ástríkar gjafir allar þær,
elskuríkasti faðir kær,
þakka eg mildri þinni náð,
þúsundföld lofgjörð þér sé tjáð.
Gef að eg aldrei gleymi hér
því góða sem þú veittir mér,
heldur sem annað hlýðið barn,
heiðri þig, Drottinn náðargjarn.
3.
Sjá mitt angrátt og sorgfullt geð,
sem þig um biður tárum með,
fyrirgef mína sök og sekt,
syndaathæfið óguðlegt
móti þér guðdóms þrenning blíð
þessa viku og alla tíð.
Sætust forþénan sonar þíns
syndir af þvoi hjarta míns.
4.
Ljúfi Drottinn, mér líkna því,
leið þú mig þínum sannleik í.
Ást þín veri mér aðstoð blíð
allra minna lífdaga tíð,
hjarta mitt aldrei láti laust
lífs míns og sálar einkatraust,
föstust trúar faðmlögum þig
fyrr en þú hefur blessað mig.
5.
Hönd þín í dag mér stjórni sterk,
styðji og blessi öll mín verk.
Láttu þau ske til lofs við þig
en lúkast vel fyrir sjálfan mig
og sáluhjálplega framkvæmd fá
farsæl það Drottinn himnum á.
Drottinn blessi vort daglegt brauð,
Drottinn bæti vorn skort og nauð.
6.
En skuli í dag að skikkun þín
skaðsamlegt eitthvað vitja mín,
ofsókn þrautir og þrengingar
í þessum ósjó veraldar
réttu mér þína hjálparhönd
svo hvorki fordjarfist líf né önd.
Heilagt þolgæði gef þú mér,
glóandi von og trú á þér.
7.
Miskunna þeim með þinni náð,
þú, vort einasta hjálparráð,
er þín leitandi elska þig
í þér svo megi gleðja sig.
Alla nauðþrengda bænheyr best,
blessan þeim aumu meðdeilest.
Gef voru landi gleði og frið,
góða rósemd lát haldast við.
8.
Lát oss þiggja með þakklátt geð
þínar gáfur sem hefur þú léð.
Gef mér, aumasta þínum þjón,
það er, Drottinn, mín auðmjúk bón:
Það hjarta sem þig heiðri vel,
heita elsku og kærleiksþel,
yfirgef, herra, ekki mig,
ævinlega ég vona á þig.
9.
Sál mín, æra og embætti
í þína geymslu falið sé;
endurlausn mín og aðstoð trú
engla þína lát varðhald nú
umkringja mig á alla hlið,
alls kyns skaðræði forða við.
Svo lengi sem eg lifi hér
liðsemd þeirra sé yfir mér.
10.
Þú, sem mig hefur vel varðveitt,
viku þessa í nauð framleitt,
lát mér svo, góði Guð, þennan
gleðidag verða farsælan,
að eg megi þér, herra, hjá
hjartans rósemd og unum fá,
leystur af mínu mótlæti,
mildasti Drottinn, lát svo ske.