Sjötti vikusálmur: Þriðjudaga kvöld | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vikusálmar Þorvalds Magnússonar út af bók doktors Johannis Lassenii 6

Sjötti vikusálmur: Þriðjudaga kvöld

VIKUSÁLMAR ÞORVALDS MAGNÚSSONAR ÚT AF BÓK DOKTORS JOHANNIS LASSENII
Fyrsta ljóðlína:Hverninn kann eg sem ætti
bls.A7b – (22–24) Í stafrænni endurgerð: 26 [22]
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður+) þríkvætt AbAbCdCd
Viðm.ártal:≈ 1725
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Bjarki Karlsson samræmdi stafsetningu og bjó til skjábirtingar.
Tón: Allt eins og blómstrið eina, etc.
1.
Hverninn kann eg sem ætti
almátt að prísa þinn,
af innsta andardrætti?
Ó, herra Jesú minn!
er í dag enn nú hefur
ætíð bevarað mig,
þú sem allt gott mér gefur,
guð minn, eg lofa þig.
2.
Undir verndarvæng þínum
vaktan hafðir á mér
svo eg með öllum mínum
og allt hvað mér tilheyrer
er frí af öllum voða
enn framar bið eg þig
með sterkum armlegg að stoða,
styðja og leiða mig.
3.
Húmar og hallar degi
hví[l]dartíð komin er,
láttu þó, ó, guð, eigi
undirganga hjá mér.
Mildasti minn frelsari,
miskunnar þinnar sól,
svo lengi sem ég hjari
sértu mitt ljós og skjól.
4.
Minnstu ei synda minna
með hverjum styggt þig hef,
út af nægð náðar þinnar
nú mér þær fyrirgef;
veittu mér, eg þér unni
og elskan verðr svo sterk
að eg hér eftir kunni
umflýja holdsins mekt.
5.
Þitt blessað ljósið bjarta
bið eg upplýsi mig
svo eg í hreinu hjarta
hér bergi einan þig,
að eg í ótta þínum
áfram gangi mitt skeið.
Forða mér fári og pínum,
freisting og sálarneyð.
6.
Sjá þú minn herra sæli,
sígur að næturþel,
mitt slot, mitt verndarhæli,
mitt líf ég þér befel;
eg er þín barnkind auma
yfirgef mig ei nú;
lim á þínum líkama,
ljúfasti minn, Jesú.
7.
Eg hefi í öndu þinni
örugga von og trú,
láttu mig æ þar inni
óhultan sofa nú:
herra Jesú, hjartkæri,
hvílurúm blessa mitt,
önd mína endurnæri
ilmsæta nafnið þitt.
8.
Lát engla fylking fríða,
faðir trúr að mér gá,
líka dagsljósið blíða
leyfðu mér heilbrigðum fá,
svo með glaðværum munni
mætti eg prísa þig
og hjartans innsta grunni.
Amen, bænheyr þú mig.


Athugagreinar

4:6 Orðið verðr ritað án u-innskots, til samræmis við Litlu vísnabókina og bragarháttinn. (Er augljóslega ekki verði.)