Um Jesú dauða | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Passíusálmar 45

Um Jesú dauða

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Þá frelsarinn í föðursins hönd
bls.41v--42r
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður+) ferkvætt aabbcc
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1659
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Með lag: Faðir vor sem á himnum ert
1.
Þá frelsarinn í föðursins hönd
fól nú blessaður sína önd,
niður sitt höfuð hneigði fyrst
herrann í því hann sálaðist.
Drottinn vor þanninn dó á tré;
dásemd kunni ei meiri ske.

2.
Sankti Páll segir, í sannri raun
syndarinnar sé dauðinn laun.
Banaspjót hans eru brotin ljót
boðorðum drottins gjörð á mót.
Sá skal deyja sem syndgar hér.
Soddan úrskurður réttur er.

3.
En það hér heima átti síst
af því Jesús er saklaus víst.
Af helgum anda með hreinum sið
hann var getinn í meyjar kvið.
Guðs föðurs veru fegurst mynd
frjáls lifði og dó af allri synd.

4.
Hvörki refsing né heljarbað
hafði nú Jesús forskuldað.
Hvað kom þá til að herrann leið
harða pínu og beiskan deyð?
Eða hvar fyrir hirtist hann
hirtingar til sem aldrei vann?

5.
Guðs andi þar á gjörir skil,
greinir þvílíka orsök til:
Vegna misgjörða vorra hér
*vissulega hann særður er
því drottinn lagði so fyr sann
syndirnar vorar upp á hann.

6.
Sjá hér, mín sál, fyr syndir þín
sonur Guðs líður kvöl og pín.
Hann dó fyr þig sem dauðans bað
dárlega hafði forskuldað.
Hann lét sitt líf svo lifðir þú.
Lífs eilífs von því áttu nú.

7.
Á mig var fallin þyngsta þraut
því að eg drottins lögmál braut.
Samvisku særði syndagráð;
svo fékk dauðinn sterk yfirráð.
Til fordæmingar mér fjötrin hans
fastlega héldu víst til sanns.

8.
Lögmál safnaði sektum mér.
Sektinni dauðinn eftir fer.
Dauðinn til dómsins dregur snar.
Dómurinn straffið úrskurðar.
Straffið um eilífð aldrei dvín.
Eilíf því var hin þyngsta pín.

9.
Lögmálið hér sig forgreip fyrst;
felldi það dóm yfir herrann Krist.
Það bauð að sá bölvaður sé
sem bana líður á einu tré.
Djarflega eftir því dauðinn gekk,
drottin frá lífi skilið fékk.

10.
Sekt þá, sem lögmál setti mér,
saklaus borgaði Jesús hér.
Það missti sína makt í því,
mig verður nú að láta frí.
Dauðans broddur var brotinn þá;
burt hans fangelsi slapp eg frá.

11.
Eilífur dauði deyddur er.
Dauðinn Jesú það vinnur hér.
Dýrt metur drottinn dauða minn.
Dauði, hvar er nú broddur þinn?
Dauðinn til lífsins nú stutt er stig.
Stórlega því dauðinn batar mig.

12.
Dauðinn því orkar enn til sanns,
útslokkna hlýtur lífið manns,
holdið leggst í sinn hvíldarstað;
hans makt nær ekki lengra en það.
Sálin af öllu fári frí
flutt verður himna sælu í.

13.
Í þínum dauða, ó, Jesú,
er mín lífgjöf og huggun trú.
Dásemdarkraftur dauða þíns
dreifist nú inn til hjarta míns.
Upp á það synd og illskan þver
út af deyi í brjósti mér.

14.
Þú hneigðir þínu höfði ljóst,
herra, þá þú á krossi dóst.
Með því bentir þú mér það sinn
að minnast jafnan á dauða þinn.
Eins, þá ég dey, skulu augun mín
upplíta, drottinn sæll, til þín.

15.
Fyrir þann deyð sem þoldir þú,
þig bið eg, Jesú, um það nú
að gefi mér þín gæskan blíð
góða kristins manns dauðatíð.
Hold mitt lát hvílast hægt í frið.
Hönd þín sálunni taki við.


Athugagreinar

Amen

(Sjá Passíusálmar 1996, bls. 180–183)