Tuttugasti og þriðji Davíðssálmur í íslenskum sálmabúningi | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Tuttugasti og þriðji Davíðssálmur í íslenskum sálmabúningi

Fyrsta ljóðlína:Minn guð og herra’ er hirðir minn
Höfundur:Valdimar Briem
bls.0
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt aaBBcc
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1898
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Valdimar sneri Davíðssálmum Biblíunnar í bundið mál. Hér snýr hann hinum þekkta sálmi sem í Biblínunni hefst á orðunum „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.“
Minn guð og herra’ er hirðir minn
mér hjálpararm hann réttir sinn.
Ég veit hann æ mér vill hið besta,
ég veit hann ei mig lætur bresta
það neitt, er getur gagnað mér,
því góður hirðir drottinn er.

Um blómum stráða, græna grund
mig guðs míns leiðir föðurmund
að svalalyndum silfurskærum
og svalar mér úr lækjum tærum;
hans líknarhöndin hressir mig
og hjálpar mér á réttan stig.

Og þótt ég gangi um dauðans dal,
hans dimma mér ei ógna skal.
Ef geng ég trúr á guðs míns vegi,
mér grandar sjálfur dauðinn eigi.
Þín hrísla’ og stafur hugga mig,
minn hirðir, guð, ég vona’ á þig.

Þú dýrlegt sælu-borð mér býr
með blessuð náðargæðin dýr;
þitt líknarbalsam ljúfa’ og bjarta
þú lætur drjúpa sært á hjarta;
Þú mjer þinn gleði-bikar ber,
sem besta svölun hjartans er.

Minn guð, ég finn þú fylgir mér
ég finn hve vel ég leiddur er
á öllum mínum ævivegum
af armi þínum guðdómlegum.
Ég eins er hér í dauðans dal
í dýrðar þinnar bjarta sal.