Á leið inn Breiðafjörð vorið 1929 | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Á leið inn Breiðafjörð vorið 1929

Fyrsta ljóðlína:Heill, heill þér, frægi fóstri minn!
bls.109–111
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt aaBccB
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1929
1.
Heill, heill þér, frægi fóstri minn!
Hve fagurt er að horfa inn
í fjalla faðm þinn bláa.
Þar stendur fremst hin forna Skor,
þar finnast Eggerts hinstu spor
gegnt Snæfells hnjúknum háa.
2.
Þó herji landið hafísinn,
hann kemst ei inn í faðminn þinn;
af feimni fer hann hjá sér.
Þó sprikli hann þar með sporðaköst,
þá spyrnir fast hún Látraröst
og kastar kögglum frá sér.
3.
Þó aðrir megi ei sækja sjó,
þeir sitja hér í friði og ró
á öllum miðum inni.
Þá glymur hátt í Bárðarbás,
er brosir gamli Snæfells ás
að drafnar drottning sinni.
4.
Frá ysta nesi að innsta sand,
þú allra fugla Gósenland,
þeir prýða prýði þína.
Hinn fleyga skara fæðir þú
og fær þeim lönd; þeir reisa bú
og ala upp unga sína.
5.
Hver dropi þinn er lítið líf.
Á ljósum bárum þínum svíf
ég inn í æsku mína.
Af skeljum var hver vík þín full.
Ég veit þú munir barnagull
mér gefa í minnig þína.
6.
Þar rísa voldug Vaðalfjöll
sem virkis múr, sem risahöll,
svo himinhá og fögur.
Og skammt frá þeim þar skógur grær,
í skjóli stendur lítill bær;
hann segir Braga sögu.
7.
Því hann kom þessum fjöllum frá,
hinn fráni örn með vorsins brá,
vor æðsti ósnillingur.
Hans minning lifa mun oss hjá,
á meðan speglast fjöll í sjá,
og nokkur svanur syngur.
8.
Við djúpan, bláan Breiðafjörð
á bygðri ey og dala jörð,
þar þrífst ei hugur þröngur.
Mér finnst ég skilja, hann fæddist þar,
sem fegurð mest og hagsæld var
og sífelld vaka og söngur.
9.
Þar var ei ávallt sofið sætt,
en sjávarfalla og veðra gætt
og farið snemma á fætur.
Nei, þar var stríð við storm og gráð
af stórum, hraustum drengjum háð,
og vos og vöku nætur.
10.
Nú yfir hólma, ey og sker
og yfir strönd og fiskiver
og fjöll og djúpa dali,
að blessun Drottins breiði sig,
ég bið, og hönd hans leiði þig
að afbragðs börn þér ali.