Annað er um að tala en í að koma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Annað er um að tala en í að koma

Fyrsta ljóðlína:Mjer líst’ ekki á að lifa’ hér
bls.37–38
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt aaBccB
Viðm.ártal:≈ 1875
1.
Mér líst‘ ekki á að lifa‘ hér,
því ljósin vonar byrgjast mér,
ég dregst í döpru húmi.
Mig langar til að leysast braut,
og lífsins gleyma kvíða‘ og þraut
í hinsta hvílurúmi.

2.
Samt ekki‘ í dag ég deyja vil;
þó dragist það um nokkurt bil
mun til þess tími síðar.
Ég þarf að ljúka ýmsu af,
og eiga margt við vini skraf,
og frétta um framgang tíðar.

3.
Já, þetta er í sannleik svo:
þó sæi‘ eg boðna kosti tvo:
um fjör og feigð að velja:
Ég vildi stytta stríðsdag minn;
en strax ég væri‘ ei tilbúinn;
því kysi‘ eg dauða‘ að dvelja.