| Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra
AAAA12

Sósialistisk sveitarstjórnin

Höfundur:Höfundur ókunnur
Tímasetning:1950


Tildrög

Hreppsnefndarkosningar á Stokkseyri, líklega 1950.
Sósialistisk sveitarstjórnin
setið hefur í fjögur ár.
Bakkusi tíðum færð var fórnin
frískandi var að eiga tár.
Óspart gefið á garðann var
getið er lítt um fyrningar.


Nú þegar að valda sígur sólin
setur að hroll og skjálftaflog.
Fá eru í að skríða skjólin
skrifað er allt á syndavog.
Hópurinn fullur hugraunar
horfir nú fram á kosningar.


Sprengt var í rásum, reistur skóli,
ræsi úr dælum grafið var,
samt mun vorri stjórn af stóli
steypt í þessum janúar.
Blæs þá í sín beru kaun
Björgvin og hlýtur verðug laun.


Það vil ég segja góðum gestum
gátuna set í stuðla og rím.
Hæpið er mjög og hulið flestum,
hverjir kjósa nú Sigurgrím?
Hann því með stórum stendur geig
studdur af Gísla í Beinateig.



Vafalaust áfram Símon setur
sagður er klár á útsvörin.
Ráðið þá gæti hann búi betur
batnandi færu lífskjörin.
Frægðar á himni fellur sól
fæst ekki Stebbi á Sjónarhól.



Íhaldið reyndan Magnús metur
maðurinn stjórnar Kumbravog.
Störfin fjölþætt fengið getur
fæst nú við kýr og sláturtrog.
Ásgeiri við þeim hugur hrýs
hikandi þó með ólund kýs.



Gunnari á Hólmi hátt er veifað
hressa vill fólksins bágu kjör.
Framboð hans sterkt er rökum reifað
reyndur í margri svaðilför.
Hrepps ef að sykki sjóðurinn
sendur væri kafarinn.