Vetrarkvíði | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Vetrarkvíði

Fyrsta ljóðlína:Eitthvað vekur mér ótta
Viðm.ártal:≈ 1960–2000
Tímasetning:1980
Eitthvað vekur mér ótta;
endir vorljósra nótta
langir skuggar með löndum.
Fífan tekin að fjúka
fyrstu vindarnir strjúka
öxin ómjúkum höndum.

Hljóður strýk ég um strengi
stilli hörpuna lengi
finn hún titrar af trega.
Hún sem bar okkur blómin
burt með vorfuglaróminn
farin veg allra vega.

Það er vonlaust að vaka
víkur aldrei til baka
það sem horfið er héðan.
Sérhver fegurð mun falin
fellir snjó yfir valinn
þróast myrkrið á meðan.