Gestir sem gleðja | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Gestir sem gleðja

Fyrsta ljóðlína:Ekkert mér leiðist sem októberregn
Viðm.ártal:≈ 1960–1980
Tímasetning:1970
Ekkert mér leiðist sem októberregn
með æðandi vindstreng frá hafi.
-Það lemur og pískar og gengur í gegn
um gluggann hjá mér-, segir afi.
Þá dagurinn týnist í grámyglugraut,
sig grettir öll tilveran rennandi blaut,
af regnvatni fyllist hver lægð og hver laut
og langflest á bólandi kafi.

Já, það var í Króki einn þesskonar dag;
mér þótti flest dauflega ganga.
Hann afi í sífellu sönglaði lag
um sjólann á Orminum langa.
Ég sótti þó niður í kjallaran ket,
í kraumandi pottinn svo bitana lét.
En stanslaust við rúðurnar rigningin grét
-og rósirnar hættar að anga.

Þá heyrðum við barið og barið á ný
við bjuggumst við skottum og móra.
Til dyra samt gekk ég, að gæta að því,
-í gáttinni stóð þá hún Dóra.
Og með sér hún hafði sinn þarfasta þræl.
Hún þrumaði: -Komið þið blessuð og sæl !
Þá lagði á flótta allt volæðisvæl
og víst fékk hann afi þrjá, fjóra.....

Og bærinn i Króki varð bjartur og hlýr,
slík blessun frá Halldóru streymdi.
Og afi, hann varð allur sem nýr
og Ólafi sjóla hann gleymdi.
Og þrællinn var fyndinn og léttur í lund,
öll leiðindi týndust á þessari stund,
margt atvik þess liðna nú losaði blund,
sem langminnugt hugskotið geymdi.

Svo kvöddu þær líkt eins og kóngur og þræll,
og kóngurinn, það var hún Dóra.
Hún vatt sér að afa; -Marg-vertu-nú sæll !
og víst fékk hann meira en fjóra....
Og nýkeypti fordinn var fljótur af stað,
hann fékk enga kveisu né rigningarbað.
Svo hljóðnaði bærinn, já, það er nú það-
og þetta tókst manni að klóra.