Flóinn | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Flóinn

Fyrsta ljóðlína:Sástu suð’r í Flóa
Heimild:Suðri III.
bls.8
Viðm.ártal:≈ 1950
Sástu suð´r í Flóa
sumarskrúðið glóa,
þegar grænust gróa
grös um Ísafold ?
Sástu vítt um vengi
vagga stör á engi ?
Sástu djarfa drengi
dökka rækta mold ?

Allt af lífi iðar,
yfir fuglinn kliðar,
foss í fjarska niðar,
fiskar ganga úr sjó.
Vekur sumarsunna
söng í blómarunna.
Mettar ótal munna
moldin djúp og frjó.

Þar sést tíbrá tifa,
töfrafingur skrifa,
loftsins öldur lifa,
líða í hægum blæ.
Kvölds er skuggar klæða
kollinn ása og hæða,
dulráð dalalæða
dúðar sveitabæ.

Breiða byggð um slyngur
bjartur fjallahringur.
Glitrar geislafingur
gulli fell og tind.
Allt frá Eyjafjalla
aldagömlum skalla
raðir risafjalla
roðna í himinlind.

Upp af byggðum breiðum
bungur rísa á heiðum.
Langt frá manna leiðum
ljómar snær á fjöll.
Hekla, Búrfell, Bláfell,
bæði stór og smáfell,
hvar sem augað á féll
íslensk fjallatröll.

En ef að augað lítur
út og suður, þrýtur
fjallafaðmur ítur,
fyrir opið haf.
Stundum hafsins hylling
hefst í reiði og trylling.
Ægis feikn í fylling
færir strönd í kaf.

Var þar oft í veri
vöndum róið kneri.
Boði skall á skeri
skvetti á rangahund.
Mæddist stoð og strengur,
stýrði vaskur drengur.
Fluttist ærinn fengur
framan hæpin sund.

Enn er dáð og dugur
djarfur karlmannahugur,
hvorki bil né bugur
beygir hann í raun.
Gengnir menn og góðir
gerast þar um slóðir.
Sumra þyngjast sjóðir,
svo eru búmanns laun.

Mettar móðurbarmur
mildast barnsins harmur.
Forðar ömmu armur
ógn og slysum frá.
Hýrleit heimasæta
hugann vön að kæta
mun þér einnig mæta
mörgum bænum á.

Hvar sem stofninn sterki
stefnir rétt að merki,
vex af hverju merki
von og trú á fold.
Enn mun sýna og sanna
saga Flóamanna
ást til átthaganna,
ást á frónskri mold.