Fjalla hyllum foringjann | Kvæða- og vísnasafn Árnesinga
Kvæða- og vísnasafn Árnesinga

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (113)

Fjalla hyllum foringjann

Fyrsta ljóðlína:Fjalla hyllum foringjann
bls.115
Viðm.ártal:≈ 1950

Skýringar

Ágúst flutti drápu þessa Magnúsi Árnasyni í Flögu sjötugum, fjallkóngi um áraraðir á Flóamannaafrétti
Fjalla hyllum foringjann
fjörs með snilli í æðum
enginn kvilli angri hann
eða spilli gæðum.

Ungur fékk á fjöllum ást
fé var þekkast yndi.
Ratvísin ei rekknum brást
þó rofaði ekki af tindi.

Fékk oft svall í Fitjarreið
flýði kall er vanda,
þó að fjalla þokan leið
þekti alla granda.

Þó á hönd sér sæi síst
sortnuðu lönd og gata,
kóngur styrkur kunni víst
í ketilmyrkri að rata

Hleypti hesti hart um fjall
hafði nesti í tösku.
Laus við geig var garpur snjall
með guðaveig á flösku.

Hirðmenn hrausta hafði þá
og hesta trausta í förum.
Skipaði svalur sjóli sá
sauðasmalaskörum.

Þegar hann smalaði frelsi frá
fénu um dali og hjalla
hljómuðu af gali og hundagá
háir salir fjalla.

Hlýða köllun kóngs í leit
kveðja fjöllin hryggar
og fljótt þá renna fram í sveit
fjallaglennur styggar.

Kóngsins sálin gerðist glöð
gall við málið létta,
þegar um hlíðar hentist hröð
hjörðin fríð til rétta.

Nú er óskin okkar sú
við Elli hann þrjóskist lengi
kóngstign haldi og hafi bú
hreppstjóravald og gengi.