Skíðaríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Skíðaríma

Fyrsta ljóðlína:Mér er ekki um mansöng greitt
bls.181–215
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1400–1475
Flokkur:Rímur

Skýringar

Um Skíðarímu í Íslenskri bókmenntasögu II:
Hún er stök en þó jafnlöng og ýmsir rímnaflokkar, rösklega tvö hundruð erindi. Hún er ekki varðveitt í neinum handritum eldri en frá 18. öld en hins vegar er getið um hana í ritum frá upphafi 17. aldar og þá sem gamalt kvæði. Málið á rímunni bendir til að hún muni varla yngri en frá 15. öld. Ríman er vafalaust kveðin á Vesturlandi, nánar tiltekið Dalasýslu. [...] Sem höfundar hafa verið nefndir Einar fóstri, Sigurður fóstri og Svartur á Hofsstöðum en það er allt öldungis óvíst.   MEIRA ↲
1.
Mér er ekki um mansöng greitt,
minnstan tel eg það greiða,
því mér þykir öllum eytt
af því gamni leiða.
2.
Yngismenn vilja ungar frúr
í aldingarðinn tæla,
feta þar ekki fljóðin úr,
flest er gört til væla.
3.
Komi upp nokkur kvæðin fín
af kátum silkihrundum,
kalla þær sé kveðið til sín
af kærleiks elskufundum.
4.
Ekki sómir amors vess
öllum bauga skorðum,
gengur mörgum gaman til þess,
að gylla þær í orðum.
5.
Látum heldur leika tenn
á litlum ævintýrum,
þá munu geta vor góðir menn
hjá gullhlaðs skorðum dýrum.
6.
Fjölnis átta’ eg fornan bát,
sem flaut í óðar ranni,
þar var skrifuð á skemmtan kát
af Skíða göngumanni.
7.
Hann ólst upp í Hítardal,
hár á jungum aldri,
það er hvorki skrum né skjal
skrifað af menja Baldri.
8.
Manna hæstur, mjór sem þvengr,
miklar hendr og síðar,
þó var upp af kryppu kengr,
og krummur harla víðar.
9.
Skeggið þunnt og skakkar tenn,
skotið út kinnabeinum,
djarfmæltur við dánumenn,
drjúgum hvass í greinum.
10.
Skreppu átti hann Skíði sér
og skónál harla prúða,
þar með enn, sem innt er mér,
allan skreppu skrúða.
11.
Hér með á hann sér stóran staf
og stæltan brodd með hólki;
maðrinn kunni máttar skraf,
misjafnt þekkur fólki.
12.
Húsgang réð um allan aldr
ævi sinnar þreyta,
öngva menn fann auðar Baldr
í orðum sínum neyta.
13.
Hirslu átti halrinn sér
heldur innanfeita,
úr máta stór og mikil er,
má hún því Smjörsvín heita.
14.
Er hún gjör sem annað svín
innan hol sem kista;
Grelant dvergr úr garði sín
gaf honum það til vista.
15.
Hleypr á millum horna lands
halrinn búinn til pretta;
getið er Skíða göngumanns
um görvallt ríkið þetta.
16.
Nú hefir kempan kappi herð
kannað vestursveitir;
þá er hann kominn úr þeirri ferð,
þar sem Saurbær heitir.
17.
Stóð þar bær, er Staðarhóll hét,
stefnir þangað Skíði;
þenna frá eg að þekkjast lét
Þorgils, bóndinn fríði.
18.
Odda son var á afrek vendr,
ýtum stýrði fínum;
þar var Skíði af skötnum kenndr
og skemmti af ferðum sínum.
19.
Segist þá drengrinn sótt hafa heim
seggi vestr um fjörðu:
brenni allr á bakinu þeim
beininn, sem þeir görðu.
20.
Strillur gáfu mér stjúg og skyr,
skráklegt var það næmi, –
Óðinn hrindi þeim út úm dyr
fyrir allt sitt ráðskonu dæmi.
21.
Þorgils rekr úr seggnum sult,
sá kann drengjum hjúka;
matsvín hans var meir en fullt
að morgni, þá hann vill strjúka.
22.
Árla dags er uppi sá,
sem á fyrir mörgu að hugsa,
slátra fóru slyngir þá
og slógu af Stagleyjar-uxa.
23.
Þorgils talaði þýðr og glaðr
þá við drenginn fína:
Hvað vill Skíði húsgangsmaðr
hafa fyrir skemtun sína?
24.
Á skæðum kvað sér skjótast þörf,
því skólaus gengi löngu,
margur hefr sá meiri svörf,
sem minna treystir göngu.
25.
Skæðin voru af skarpri húð,
skorin með hvössum knífi,
þau vóru ekki þynnri en súð, –
þá var gaman að lífi.
26.
„Renna mundi rausn af þér
við rekka harla fróða,
ef þú gæfir önnur mér
af uxanum þínum góða.“
27.
Sker þú sjálfur, Skíði minn,
skæðin svó þér líki.
Ofrligt er um örleik þinn,
örva þundrinn ríki.
28.
Ristir hann ofan af mölunum mitt
mikla lengju og víða,
hafa þeir á því hvers manns kvitt,
hann muni aldrei ríða.
29.
Allt var senn í einum skrið,
upp var trúss meðal herða,
seggi biðr hann sitja í frið,
svó er hann búinn til ferða.
30.
Ásólfsgötu og austr um Skörð
ætla eg drengrinn þrammi,
þar til kempan kappi hörð
kemr þá niðr í Hvammi.
31.
Sturla hét, er stýrði þar
staðnum þeim enum fríða,
sæmd og heiðr af seggjum bar,
sjálfboðið lét hann Skíða.
32.
Hefir þú kannað héruðin vestr?
hátt réð Sturla að mæla,
hver er þar skatna skörungr mestr?
Skylt er slíku að hæla.
33.
Þorgils er þar bóndinn bestr,
baugum kann að slæða,
eg var hans í gærkveld gestr,
hann gaf mér tvenn pör skæða.
34.
Sturla gaf honum stæltan kníf
og stórum görði hjúka,
sjálfan guð bað signa hans líf,
svo er hann búinn að strjúka.
35.
Garprinn opnar góma sal,
gömlum kjöftum skelldi,
hann kveðst suðr í Hítardal
hátta skyldi að kveldi.
36.
Drattar hann á Svínbjúg suðr
og svo með Hítarvatni,
í honum görðist illur kuðr
aldri trú eg hann batni.
37.
Beiskaldi í Belgjardal
birgðum trú eg safni,
þenna kenna þegninn skal
Þorleif öðru nafni.
38.
Honum var ekki hjúkað þar,
heldur tók að nátta,
fram í stofunni frá eg hann var,
þá fólkið skyldi hátta.
39.
Hann vilja ekki höldar sjá
hvórki að mat né drykkju,
hann Leifi kvað ei liggja á
um lítilmennis þykkju.
40.
Hann skefr þá ofan af skæðum sín
og skóna gerði fjóra,
það kom rétt í reikning mín,
hann rekr í þvengi stóra.
41.
Býr um skó á belti sér,
en bindr upp á sig aðra,
það hafa seggir sagt fyrir mér,
slíkt eru brögðin þaðra.
42.
Setr hann fyr sig svínið frítt,
síðan bregður keppu,
fiska stykkið fagrt og vítt
frá eg hann tók úr í skreppu.
43.
Seggrinn tæmdi svínið hálft
og sjö grunnunga barða,
viðbit hlýtr að synja sjálft,
setr nú að honum kvarða.
44.
Kastr hann sér í krókpall niðr
kænn til húsgangs ferða,
svínið bindr hann síðu viðr,
en setr upp trúss meðal herða.
45.
Drengrinn frá eg í loft upp lá,
lítið varð af söngum,
fátækt fólkið hvíldi hjá
og hræddist strákinn löngum.
46.
Ekki frá eg hann signdi sig,
seint tók gleðin at rakna,
og mun brátt, það uggir mig,
af illum draumi vakna.
47.
Síðan fór hann að sofna brátt,
segginn enginn gleymdi,
ferlig undrin fram á nátt
frá eg hann Skíða dreymdi.
48.
Inn kom maðr í stofuna stór
með stæltan hamar í hendi,
það var að öllu Ásaþór,
sem Óðinn kóngur sendi.
49.
Rekkrinn gett í rannið inn,
rak upp augun bæði:
Hefr þú, Skíði, hetjan stinn,
hlotið gönguskæði?
50.
Orðum hagaði þannig Þór,
þegar hann finnur Skíða –
Óðinn kóngur, yfirmann vór,
yður bað til sín ríða.
51.
Frétt hefr hann að fremdin þín
fer um heiminn víða,
hann vill alla hafa til sín,
sem heimsins listir prýða.
52.
Lánað er þér list og vit,
lukkan hefur þig fangað,
því hefur sjóli sent þér rit
að sækja austur þangað.
53.
Kom þar til með kóngum tveim
í kveld, þá vér skyldum hátta,
Óðinn gefr þér ærinn seim,
ef þú gerir þá sátta.
54.
Réttast gerði raumrinn stirðr,
og réð þó fyrst að hrækja,
ei skal milding minna virðr,
mun eg á fund hans sækja.
55.
Skíði frá eg að skýst á fætr
og skundar út með Þóri,
ekki frá eg að lítið lætr
laufa viðrinn stóri.
56.
Þeir á jökla arka austr
Ásaþór og Skíði,
leiðsögumaðrinn lukku traustr
lastar ei þó bíði.
57.
Austr af Horni og út á haf
álpuðu þeir frá landi,
Noreg frá eg þeir næði af
nærri Þrándheims sandi.
58.
Þótt bylgjur rísi á bröttum sjó
bragna gerir það káta
aldri tók þeim upp yfir skó,
og eigi frá eg þá váta.
59.
Fundu þeir í fjörunni mann,
frá eg hann Ölmóð heita,
útisetuna eflir hann
og ætlar spádóms leita.
60.
Ölmóðr heilsar þegar á Þór:
þú munt kunna að skýra,
hver er sá maðr, er með þér fór,
eða mun hann lukku stýra?
61.
Skíða norðmann skulum vér hann
að skírnarnafni kalla,
hefir í brjósti hreystimann
heimsnáttúruna alla.
62.
Mér líst ekki meiri kraftr
mens yfir þessum lundi;
hitt mig uggir, hann komi ei aftr
heill af ykkrum fundi.
63.
Spáðu mér engra, Herjans höttr,
hrakferða, kvað Skíði,
elligar skal eg, þinn digri dröttr,
dubba þig, svo svíði.
64.
Hvorki er það hól né skrum,
hafi þig æsir fangað,
þér mun kostr að kóklaz um,
komist þú austur þangað.
65.
Fljótliga leiddist Skíða skraf,
skapillr trú eg hann þykki,
laust til Ölmóðs löngum staf,
lítt kom við eða ikki.
66.
Skíði rann, er skyldi hann
skjótt á þaranum ganga,
hólkinn missti húsgangsmann
af harkinu því enu langa.
67.
Virðum gengur varla í hag
víst ef fleiru týna;
Ölmóðr hafði annan dag
járnið þetta að sýna.
68.
Austr af Noreg ýtar tveir
áttu fyrst að ganga,
drukklanga stund dratta þeir
fyrir Danmörk endilanga.
69.
Svó var brautin breið fyrir þeim,
sem borgarstræti væri,
ýtar kómu í Asía-heim
Óðins höllu næri.
70.
Þá vóru skórnir Skíða í sundr,
skipti hann um þá síðan,
en hina fornu laufa lundr
lagði í klassekk víðan.
71.
Borgarturnar glóa sem gull
glymr í hverju stræti,
heimsins er þar hegðan full
og hæversk önnur læti.
72.
Hverr á þessi húsin stór?
hátt réð Skíði að mæla.
Þetta er hún Valhöll vór,
sem vís er í auðr og sæla.«
73.
Skíði spurði að þessu Þór:
þú munt kunna að skýra,
hvar kempur sitja og kóngur vór
og kappa-sveitin dýra.
74.
Óðinn sitr þar innstr í höll
og æsir tólf á stóli,
glóar hún öll af greipar mjöll
og grettis rauðu bóli.
75.
Horfir beint á Hilditönn
og Hálfdan kóng enn milda,
þér mun virðast saga mín sönn,
slíkt tel eg rekka gilda.
76.
Ívar sitr þar instr í höll
og Álfur kóngr enn sterki,
Hrólfur kraki, og hirð hans öll,
hraðr að snilldar verki.
77.
Áka líta og Agbarð má,
einnig Starkað gamla,
Arngríms synir þar utar í frá,
ekki lítið bramla.
78.
Blót-Haraldur býr þar næst
beint og Þráinn í haugi,
við þá líkar fyrðum fæst,
flagðs er litr á draugi.
79.
Völsungr er með vísis þjóð
og Víðólfs mittumstangi,
Eddgeir risi og Aventróð,
allt er á reiðigangi.
80.
Hér er og Geirmundr heljarskinn
og hjá honum kappinn Víkar,
Sörli hinn sterki sest þar inn;
slíkt eru kempur ríkar.
81.
Ásmundr sitr þar yst við gátt,
er hann sá mesti kappi,
garprinn sá, sem Gnoð hefr átt,
gerir sér flest að happi.
82.
Enn víðfaðmi Ívar sitr
innstr á pallinn langa,
hundrað kónga, herrann vitr,
hvern dag með honum ganga.
83.
Sigurðr hringur sitr þar hjá
og sonr hans kóngrinn Ragnar,
Áli hinn frækni utar í frá,
eru það röskvir bragnar.
84.
Ragnarssyni reikna má
rétt hjá Andra jalli,
og Ísungssynir utar í frá
ekki smáir á palli.
85.
Regin og Fáfni, rekkrinn sá
rétt fyr norðri miðju,
átján dvergar utar í frá,
allir hagir í smiðju.
86.
Hér næst sér þú hölda tólf
heldr í vexti gilda,
garpinn þekkti Göngu-Hrólf
og Gautreks arfann milda.
87.
Þóri járnskjöld þekkja má,
þar með Högna og Gunnar,
Ubbi inn frækni utar í frá,
ei mun betra sunnar.
88.
Yst við gátt er Sigurðr sveinn
settr af görpum snjöllum,
fyrri vann hann Fáfni einn,
frægstr af kóngum öllum.
89.
Heldr hann öllum hræddum hér
hirðir orma setra,
Óðinn telr hann ekki sér,
autt rúm þykir betra.
90.
Þar er á stóli Freyja og Frigg,
og fara með hvíta glófa;
enn er hin þriðja þorna vigg,
það er hún Hildr en mjóva.
91.
Heðinn vill gjarna Hildi fá,
en Högni stendr á móti;
fyrir það magnast málma þrá,
múgrinn kastar grjóti.
92.
Hér felst undir auðnar þín,
ef þú gerir þá sátta,
ellegar verðr það ýta pín
innan fárra nátta.
93.
Því næst gekk í Háva höll
halrinn kampasíði,
hirðin tók að hlæja öll:
hvað mun hann vilja hann Skíði?
94.
Skíði heilsar Fjölni fyrst,
það féll honum eigi úr minni,
hann sá alla heimsins list
í húsi þessu inni.
95.
Herra Óðinn hreyfði sér:
heill og sæll minn Skíði,
sjálfboðinn skaltu í sess hjá mér
seima lundrinn fríði.
96.
Hér er sá maðr, er mig hefr lyst
marga stund að finna.
Þú skalt segja mér fréttir fyrst
og farlengd þína inna.
97.
Fréttalaust er í ferðum mín,
fátt er kyrru betra,
nálgast hef eg á náðir þín,
nú er eg sex tigi vetra.
98.
Óðinn spurði eftir nú,
og er það minni vandi:
eru margir meiri en þú
menn á Ísalandi?
99.
Á Íslandi eru margir menn
misjafnt nokkuð ríkir,
þó eru ekki allir enn
oss að menntum líkir.
100.
Þorgils er þar bóndinn bestr
á byggðum vestursveita,
sá kemr engi göngugestr,
að greiða vilji neita.
101.
Ei er eg vanr, að aulinn kvað,
í orðum menn að gylla,
þó vil eg sýna þér svínið það,
er seggrinn réð að fylla.
102.
Annað er þar ágætt líf,
ætla eg hann heiti Stulli,
mér gaf þenna mæta kníf
maðrinn sæmdafulli.
103.
Fyrir þá neyð, hann Fjölnir tér,
þú fórst úr landi þínu,
kjörgrip skaltu kjósa þér,
kall, úr ríki mínu.
104.
Herra, gef mér hólk á staf,
hann vil eg gjarna þiggja,
trúa mín veit eg týndi honum af,
eg tel hann í Noreg liggja.
105.
Rögnir kallar Regin til sín:
rammliga skaltu smíða
stinnan hólk úr stáli mín
á staf míns herra Skíða.
106.
Hann kvaðst mundu hraðr að því
og hefir sig út í smiðju,
hálfan fjórðung hafði í,
hæst var rönd í miðju.
107.
Þú skalt, Brokkur, blása í dag
best fyrir smíðum vöndum,
bresti þig á belgjum lag,
bani er þér fyrir höndum.
108.
Góði herra, gef mér smjör
greitt í hirslu mína.
Bónin sú fell beint í kjör,
biðr hann Freyju sína.
109.
Vistafátt mun verða þér
víst, ef játar flestu,
sá kostnaðrinn sest að mér,
smjörlaus er eg að mestu.
110.
Laufey skal fara að láta í,
en Loki eftir hlaupa.
Mér sýnist engi sæmd að því,
ef smjör þarf út að kaupa.
111.
Fárbauti skal fylla svín
og færa það heim til hallar.
Far þú og geym það, Freyja mín,
fram til þess hann kallar.
112.
Þar kom innar áfengt öl,
Óðinn drakk til Skíða:
Þú skalt hafa hjá mér dvöl
og hvergi í kveldi ríða.
113.
Halrinn þakkar herra vín:
hafi þér guðs laun Óðinn.
En hann greip fyr eyrun sín,
sem að honum færi vóðinn.
114.
Hann skalt ekki í húsum mín
hirða þrátt að nefna,
elligar styttist auðnan þín,
sem áðr hef eg þér gefna.
115.
Kvonfang skaltu kjósa þér,
kann eg flest að greina,
fljóðin læt eg föl hjá mér,
nema Freyju mína eina.
116.
»Þýða kýs eg þorna brú,
það er hún Hildr en mjóva,
mér líst engi önnur sú
jafnvel kunni að hófa.
117.
Högni ræðr, hver hana á,
því hún er hans einkadóttir;
ei mun Heðni hugnaz þá,
ef hér eru menn til sóttir.
118.
Skíði veik að Högna hér
og hóf svo ræðu sína:
Hvað skal eg leggja í lófann á þér,
þú leyfir mér mey svo fína.
119.
Högni segir að hilmir má
Hildi sjálfur gifta:
hvergi kýs eg hærra á,
því hér er við dreng að skipta.
120.
Alt í heimi ynna eg til,
að þið Högni sættust.
Þeygi gengur þetta í vil,
þó við Hildur ættust.
121.
Mágur þinn eg verða vil,
veik svo Skíði að Högna,
vertu sáttr og vík þú til
víst við kónginn rögna.
122.
Högni segir að mágr hans má
mikið um þetta ráða.
Séuð þið kvittir og sættist þá,
signi guð ykkur báða.
123.
Illa er talað, kvað Ásaþór,
afreksmaðrinn fríði,
fyrir það týnist vináttan vór,
vendu þig af því, Skíði.
124.
Óðinn spurði unga frú,
orð þarf síst að teygja:
er þér viljugt, vella brú,
vaskan dreng að eiga?
125.
Héðni hef eg heitið því,
hans eg skyldi bíða,
en ef hann faðir minn fæst þar í,
forsmá eg ekki hann Skíða.
126.
Hilditönn skal hafa vátt
og Hálfdán kóng hinn snjalla,
vér skulum drekka brúðkaup brátt
með bragna þessa alla.
127.
Skíði rétti skitna hönd,
skyldi hann fastna Hildi,
Óðinn gaf honum Asía-lönd
og allt það hann kjósa vildi.
128.
Kappinn þar með kóngsnafn hlaut,
kænn og ör í stríði.
Stungu sumir að stála gaut:
strákslegr líst mér Skíði.
129.
Hérðinn þáði handar snjá,
horfinn þótti kvíði;
inna tekur orðin þá
önnur fleiri Skíði:
130.
Skíði gerði skyndikross
skjótt með sinni loppu,
sú hefir fregnin flogið að oss,
fékk hann högg á snoppu.
131.
Heimdallr gaf honum höggið það
horns með stúti sínum.
Hví búið þér, hann Högni kvað,
svó hart að mági mínum?
132.
Hann hefr fært þau firn að oss,
fleina lundrinn stælti,
gerði fyrir sér gamlan kross
og gervöll orðin mælti.
133.
Skíði gerði að skylmast þá
skjótt á litlum tíma,
Heimdall sló í höfuðið svá,
að hann lá þegar svíma.
134.
Hilditönn réð hlaupa upp þá
og hristi á sér bjálfann:
Hver veit, nema hrottinn sá
höggvi kónginn sjálfan.
135.
Hjó til Skíða höggin þrjú,
hér var ys á fólki,
skrökva eg ekki að skræfan sú
lét skella á stæltum hólki.
136.
Hljóp upp Geirmundr heljarskinn
og hefr upp öxi breiða:
Lemjið þér ekki hann landa minn,
lítinn tel eg það greiða.
137.
Remmigýgi rekr hann þá
rétt að Haraldi miðjum,
grimmlega lætur garprinn sá
sem geysist leon í viðjum.
138.
Mikið var um þá Haraldr hné,
heyra mátti ynki,
rétt sem stykki af stofni tré
stóra heyrði dynki.
139.
Ubbi hinn frækni atgeir rak
ótt að Heljarskinni;
öfugr féll hann aftr á bak,
ei varð dynkrinn minni.
140.
Hálfur kóngur hljóp upp þá
og hreyfði brandi sínum:
þann skal eg líftjón leggja á,
sem lemr á frænda mínum.
141.
Ubbi fékk af Álfi slag
utan á kinnar vanga,
það má kalla keppa sag,
er krátans synirnir danga.
142.
Óvit beið þá Ubbi á sér,
Ívar réð svo mæla:
Maðr mun fást á móti þér,
minnst er oss um þræla.
143.
Starkaðr gamli stóð á fætr,
sterklega tók að emja:
Ekki hirði eg hvað Ívar lætr,
ei skal hann Skíða lemja.
144.
Ívar fékk í augað slag
af honum Starkaði gamla;
ógurligt var eggja sag,
engi mátti hamla.
145.
Hálfi kóngi var haldið þá,
hann mátti ekki stríða,
alla lét hann eitthvað fá
sem ýfa vildu Skíða.
146.
Hrókr enn svarti og Útsteinn jarl
að Ubba sóttu báðir,
skýst í leikinn Skeljakarl,
skötnum býðr ei náðir.
147.
Ubbi felldi átján menn,
afbragðs kempur stórar,
Skíða sló á skoltinn enn,
svo skruppu úr tennur fjórar.
148.
Áli enn frækni á það spjót,
sem ýta kann að dubba,
rennur framan að randa brjót
og rekr í gegnum Ubba.
149.
Ubbi féll þá út um dyr
með átján hundruð sára,
lét hann ekki lífið fyr
en lungun féllu um nára.
150.
Sverði brá þá seima viðr,
sá var kenndur Agnar,
hann klauf Ála í herðar niðr,
hinn sest niðr og þagnar.
151.
Eddgeir risi til Agnars hjó,
ofan mitt í skalla,
seggrinn engu svaraði og hló,
síðan gerði að falla.
152.
Arngrímssynir í örva seim
ætla þegar að stríða,
en Völsungarnir vörðu þeim
og veita þóttust Skíða.
153.
Víkar kóngur varðist þá
vakrt á hallar gólfi,
Sörli enn sterki sverði brá
og sótti að Göngu-Hrólfi.
154.
Mittumstangi manaði Hrólf,
mætust þeir og Bjarki,
að honum sóttu ýtar tólf,
ei var lítill harki.
155.
Var það loks að Víðólfr féll,
veittist sigrinn Hrólfi,
hundrað rasta heyrði smell,
þá halrinn datt að gólfi.
156.
Að Skíða sótti mengið mest,
margur varð að falla,
heyrði þangað hávan brest,
í hólkinum lét hann gjalla.
157.
Fyrðum þótti ferleg undr
fljúga um heiminn þaðra,
hverr klauf annan hölda í sundr,
hverjir drápu aðra.
158.
Ógurlig var odda skúr,
undur má það kalla,
engi gerðist öðrum trúr,
ýmsir réðu að falla.
159.
Sló til Gunnars Sigurðr hringr,
sá var arfi Gjúka,
augnabrúnin á honum springr,
ei mun góðu lúka.
160.
Svó hjó hann til Sigurðar hrings,
að sverð stóð fast í tönnum;
hér hefir næsta komið til kings
með körskum frægðarmönnum.
161.
Sveitin görðist sár og móð,
sumir af mæði sprungu,
upp tók þeim í ökkla blóð,
axir og kesjur sungu.
162.
Eddgeir risi og Aventróð
æða fram að Skíða.
Blót-Haraldur berst af móð
búinn við Þráin að stríða.
163.
Þórir járnskjöldr þreif upp stein,
það má undur kalla,
keyrði á Haralds kinnarbein,
svo kappinn hlaut að falla.
164.
Þráinn er sterkur, það er ei undr,
því hann er tröll að mætti,
risana báða rífr í sundr
og rekr þá út um gætti.
165.
Berserkr einn, er Brúni hét,
barði Þráin til heljar,
en í því hann lífið lét,
ljótlega í honum beljar.
166.
Ormrinn Fáfnir eitri spjó,
og æðir fram að Skíða,
hrökk hann utar að hurðu þó,
hvergi var frítt að bíða.
167.
Skíði rak sinn fránan flein
á Fáfnis trjónu ljóta,
tröllsleg var sú tönnin ein,
tók úr honum að brjóta.
168.
Starkaðr gamli stóð þá upp
og stytti næsta brúna,
ormrinn rak upp bölvað bupp,
þá ball honum höggið núna.
169.
Skíði lét í skreppu sín
skákmanns efnið detta,
löng var hans en ljóta pín,
lifir hann enn við þetta.
170.
Fófnir í sitt forna híð
fór nú heim að sinni,
en Starkaðr gerir þá stála hríð,
um stund er lögð í minni.
171.
Ásaþór að ýtum gengr
og innir til við Skíða:
ei muntu ætla að lemja oss lengr,
fyrir löngu er mál að ríða.
172.
Engi er von, kvað Ásaþór,
að Óðinn muni þér lúta,
heldur munt fyrir höggin stór,
þinn hrottinn, verða að stúta.
173.
Ef þú vilt að eg ei þig slá
ofan í pönnu þína,
leggst þú niðr og lút mér þá,
lítt skulu höggin dvína.
174.
Mjölni spennti enn máttki Þór,
af megni hjó til Skíða,
hér kom á móti hólkrinn stór,
svo heyrði bresti víða.
175.
Starkaðr hjó til Þóris þá,
það kom framan í enni,
allan kviðinn ofan í frá
ætla eg sverðið renni.
176.
Berserkr einn, er Brúsi hét,
bregðr hann kylfu sinni,
Starkað gamla stúta lét,
styr varð ekki að minni.
177.
Ragnar kóngr og rekkar hans
réðu að Gautrek milda,
Ketill og Hrólfr í kappa dans
komu með drengi gilda.
178.
Heyrði til, þar hetjan fór,
höggr hann jötuninn Brúsa,
féll hann dauðr á fætur Þór,
flestir urðu að dúsa.
179.
Þá varð Hálfr í þessu laus
og þrífr upp kónginn Víkar,
færði ofan í Fjölnis haus,
svo fjandlega Óðni líkar.
180.
Þá sá hún Freyja, Fjölnis víf,
að fast tók Óðni að svíða,
stökk hún upp með stæltan kníf,
og stakk í nefið á Skíða.
181.
Högni þreif upp Hálfdan jall,
hann var frægstur gotna,
rak hann niðr svo rammligt fall,
að rifin hans gjörvöll brotna.
182.
Allir réðu æsir þá
einni röddu að kalla:
Hrekið hann Skíða, hver sem má,
eða halrinn drepr oss alla.
183.
Flestir urðu fúsir þess,
fékk hann högg við vanga,
þá var mikið um þausnir hers,
þrjátigi að honum ganga.
184.
Hann barði í hel þá Baldr og Njörð,
bæði Loka og Hæni,
fimmtíu lét hann falla á jörð,
en fleygði tólf í mæni.
185.
Til orða tók þá Sigurðr sveinn,
er sér hann á brynju ristna:
Mér líst nú sé margr um einn
manninn þann hinn kristna.
186.
Greylega tókst þér gangan, Þór,
þú ginntir hingað Skíða,
sýndr er hónum sigrinn vór,
sá mun spyrjast víða.
187.
Hefna skal eg, að halrinn kvað,
af heift og grimmdarmóði,
með hörku sækja ýtum að,
og alla lauga í blóði.
188.
Sigurðr tók þá sverðið Gram
og sveiflar til með afli,
allir þeir sem oddrinn nam
innar hrukku að gafli.
189.
Hnykkti hann Skíða um hallardyrr
og hljóp þar sjálfr í milli;
lúinn og móður lá hann þar kyrr
lítið varð af snilli.
190.
Hvíldir tó þá hjálma grér,
hetjan blés af mæði,
sér hann þá hvað Sigurðr fer,
sundur rifna klæði.
191.
Brynjur og gerðar braut í sundr
beint með afli sínu,
gerast tóku grimmleg undr,
görpum jók það pínu.
192.
Heyrði hann inn í Háva höll
hark og styrjöld bæði,
borgin var sem bifaðist öll
beint og léki á þræði.
193.
Æsir báðu beint um frið,
bragning felldi reiði,
stöðvarði þá stála klið
stoltarmaðrinn greði.
194.
Skjótliga kallar Skíði inn,
þar skatnar lágu hnepptir:
Sæll og ljúfur Sigurðr minn,
svínið lá mér eftir.
195.
Nefna mundi eg nafnið þitt,
nistill silkitreyju,
ef þú Sigurðr svínið mitt
sæktir inn til Freyju.
196.
Gnoðar-Ásmundr gerði þá
gilda sókn og stríða,
svínið tók hann seggjum frá
og sendi það út til Skíða.
197.
Það kom framan í fræðasal,
frá eg að aulinn vakni:
Heima var hann í Hítardal,
Hildar trúi eg hann sakni.
198.
Yst við gátt að aulinn lá,
ekki er trautt að frjósi,
þeir stöktu vatni strákinn á
og stumruðu yfir með ljósi.
199.
Þorleifr talar við þegninn brátt:
þinn hinn vondi slangi,
þú hefr ærst í alla nátt
og einatt verið á gangi.
200.
Fátækt hefr hér fólkið margt
fengið af þér nauðir,
ýmsa hefr þú beyst og bart,
en bragnar fimm eru dauðir.
201.
Á stafnum sjá þeir stóran hólk,
stóð hann merktur ótta,
því hefr meiðslin fátækt fólk
fengið stór af hrótta.
202.
Troðnir í sundur tvennir skór,
tel eg það ei með listum,
örkumlaðr var aulinn stór,
upp voru hemin á ristum.
203.
Nefið klofið næsta var,
nauða krankr enn sjúki,
illsku klórur aulinn bar
á öllum sínum búki.
204.
Fjórar tennur framan úr haus
fallnar voru á Skíða,
en hin fimmta orðin laus,
í hana kvað sér svíða.
205.
Bráðliga segir hann brögnum frá,
hvað bar fyrir hann í svefni;
margur setr í meiri skrá
minna yrkisefni.
206.
Skatnar hugðu að Skíða brátt,
og skoðuðu hann uppi og niðri,
hans var víða holdið blátt,
en hárið líkast fiðri.
207.
Hörun brunnið höfði frá,
heitt var eitrið klökkva,
sem ormrinn dreifði drenginn á,
dugði um hann að stökkva.
208.
Hirslan hans með hagleik gjör
hún var tóm að kveldi,
þar var komið í þrífornt smjör,
það var úr Asíaveldi.
209.
Höldar gáfu hundum smjör
úr hirslutötri Skíða;
létu þeir sitt eð leiða fjör
og lágu dauðir víða.
210.
Fundu þeir í trússi hans tönn
tuttugu marka þunga;
nú má vita, hvað sagan er sönn,
seima þöllin unga.
211.
Þeir grófu hana með fagran flúr
og fáguð meistara tólum,
bragnar gerðu bagalinn úr,
sem bestr er norðr á Hólum.
212.
Lengi vetrar lá hann sjúkr,
lítið batnar Skíða,
fölnaði hans enn fúli búkr,
og féllu á sárin víða.
213.
Aldri trúi’ eg þeim örva njót
allra meina batna,
fyrr en hann lofar að leggja af blót
og laugarnætr að vatna.
214.
Ei hef eg frétt, hver ævilok
urðu norðmanns Skíða.
Hér skal Suðra sjávarrok
sunnudagsins bíða.


Athugagreinar

Færi í lagið fljóð og menn
fornan Kvásis dreyra
saman flæktan sóns af tenn.
Sigurinn þeim sem heyra.
Endir rímunnar. Tantum.