Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Rímur af Mirsa-vitran 2

Rímur af Mirsa-vitran, 2. ríma

RÍMUR AF MIRSA-VITRAN
Fyrsta ljóðlína:Eg þess get að, auðar hlíð, þig eftir langi
Viðm.ártal:≈ 1850
Tímasetning:1861
Flokkur:Rímur

Skýringar

Hólmfríður setti saman rímurnar um Mirsa-vitran þegar hún bjóst við að líf sitt væri á enda, tæplega sextug. Hún varð hins vegar allra kerlinga elst. Úlfar Bragason bjó rímurnar til birtingar í 8. árgangi Sónar og fjallar um þær þar í grein á bls. 47–52. Frumheimildir Úlfars eru handrit í einkaeinkaeign, annars vegar Halldórs Friðjónssonar, hins vegar Indriða Þórkelssonar.
1.
Eg þess get að, auðar hlíð, þig eftir langi
ljóða gígju eg stilli strengi,
stefja grein svo aðra tengi.
[Ljóða söngur lítið sá mun lífga yndi.
Nýráðs fugl sem náms í landi
nöldra vill minn hálfsofandi.
Mótgangs djúpi oft sér af þó ætti lyfta.
Smáa hér til hafi krafta
helst mér finnst hans eðli skapta.
Æðri krafta þar til þarf að þrykkist mæða.
Svo að njótum sannrar gleði
sem að getum drottin beðið.
Ef oss vörpum uppsprettu til alls ins góða.
Þegar lífsins þrengir mæða
þýð upp rennur sólin gæða.
Sól forlaga lýsir oss í langri reisu.
Vegurinn sem verða kjósum,
verður yndis skreyttur rósum.
Byrgist þetta blíða skinið böls af éljum.
Mannsins reikna skuld það skulum
skeða af vorum hug hvikulum.]
2.
Sælu hæða sunnu til ef sífellt mæna
sálar gjörir sjónin fína,
síst oss mundi huggun dvína.
3.
Nábeðs vegi nokkur á þó neyð oss þreyti,
sálar hægðum síst það róti
sæl því eilífð brosir móti.
4.
Styðji guðdóms styrkur oss þó stríð hér þreytum,
Kristí unda að svo njótum
og kórónu dýrðar hljótum.
5.
Enda eg mansöng, eitthvað því nú ætti þvogla,
við svo Mönduls vakni hugla
vorsöngvana Óðins fugla.
6.
Venda’ að efni vil eg mína vísnasmíði.
Máske glaðri menja heiði
af masi þessu verði leiði.
7.
Bjóða áður Hárs eg hætti hornaseyru,
sem reisendur sóma stóru
sjálegt inn í húsið fóru.
8.
„Hér nú læra skaltu skjótt að skynja hraður,“
Mirsa segir, „mig við fróður
mál svo vakti reisubróður.
9.
„Efasemdir allar þínar eru rangar
á Guðs forsjón, eyðir hringa,
er þig sjálfan gjörðu þvinga.“
10.
Snart mín augu síðan sá, en sjónin ringa
missti búans sunnu sala[r],
sem var horfinn nú án dvalar.
11.
Kristals undir klárri nam eg hvelfing vera.
Í húsinu eg sá dýra
altari með fegurð skýra.
12.
Eg sá loga yfrið bjart á altarinu.
Ljósin skæru lægis funa
ljómuðu upp hvelfinguna.
13.
Ótti og lotning líka fyllti lundu mína,
eg því hné með orku lina
altaris á fótskörina.
14.
Bljúgur fyrir baðst eg þá, en brátt þó heyrði
til mín sætt með raustu skærri:
„Renn þú, Mirsa, sjón frábærri.“
15.
Brá eg við og brátt á renndi brúnasteinum.
Sprund í björtum blóma fínum
barn eitt vafði örmum sínum.
16.
Pálmaviðar eik hjá er með unga soninn.
Kærleik af sú auðar reinin
ávallt leit á fagra sveininn.
17.
Að hárlokkum lék sér hans með ljúfu geði.
Höfgi svefns á svinna brúði
seig, er hennar augu lúði.
18.
Blysin sjónar byrgjast lætur bróðir dauða.
Höfuð beygði skorðin skrúða
skæru að brjósti sveinsins prúða.
19.
Hann upp rétti handlegg sinn um hálsinn móður,
honum með kom halur fríður
höggorm við, sem tréð upp skríður.
20.
Hrökk úr trénu gargan greitt, en grimmd með stríða,
barnið til hann bítur nauða
beiskan svo það kenndi dauða.
21.
Þegar sá eg svona deyja sveininn dýra,
ýfast tók mín angurs bára,
ekki gat eg bundist tára.
22.
„Hvers mun gjalda saklaus sveinn?“ eg sögn nam laga
„Móðir skuli meður trega
missa hann svo hryggilega.“
23.
Helga þá eg heyrði til mín hljóma raustu:
„Vend þér, Mirsa!, við og lestu
vel að gá með sinni hresstu.“
24.
Við eg snérist, gætti glöggt þess gjöra skyldi.
Las eg þá og lítið dvaldi
letur eitt á brúnu spjaldi.
25.
„Móðirin hlóð á höfuð barnsins hættum skaða:
syndinni, sem mest kann meiða
mann og allri gæfu sneiða.
26.
Of miklu með eftirlæti ást af sinni
gjört hún hefði svo með sanni
saklaust barn að vondum manni.“
27.
Eg við snérist aftur þá og enn vil gæta
málverksins, sem mig nam þreyta.
Mér ei dugði þess að leita.
28.
Annað komið í þess stað leit eg með hasti.
Aumstaddur með auðnu bresti
Afdalla, minn vinur besti.
29.
Sárfátækur sínum hann á sóttarbeði
liggur nú og lúðist mæði
litverpur með tötrug klæði.
30.
Eg hans fimm leit ungu börn hann allt í kringum.
„Okkur gefðu að eta svöngum.“
Æptu þau með hryggðarsöngvum.
31.
Fríðleiki var farinn þeim og fegurð augna.
Engdu skorts og veiki vegna
vesöl sig með angist megna.
32.
Ekki gat eg á horft þeirra eymd með sanni.
Ásjónu hélt eg því minni
altaris að fótskörinni.
33.
„Aftur, Mirsa!, upplít þú,“ nam andinn ræða.
„Dæmdu rétt og rýmdu kvíða.“
Reisti’ eg mig og vildi hlýða.
34.
Eg sá börn míns eðla vinar, öll nú stóðu
gröf hans kring með geði’ óþjáðu
glöð á hana blómum stráðu.
35.
Skrautbúin nú minntust mest á mennt og dáðir,
er faðir hafði þeirra þýði
þeim innplantað geðs um hlíði.
36.
Gröfinni svo gengu frá með geðró þýða.
Frómum léði fylgd án biðar
fólksgrúi á báðar hliðar.
37.
Lýðurinn veitti vinsemd þeim og viðkvæmustu
ástsemd, líka lotning bestu,
landsins eins og börnum mestu.
38.
Sýn við þessa sorgarský mér sýndust farin.
Heil þá fundust hryggðar sárin
heit mín runnu gleðitárin.
39.
Að spjaldinu hratt eg hugði hinu skæra,
leit eg á þess letur dýra,
las þau orð er þannig skýra.
40.
„Brátt þíns hefðu besta vinar börnin góðu
drambsöm orðið auðinn viður
og því skorti hagað miður.
41.
Þannig koma niður nær á niðjum fríðu,
dyggðin fagra dáða föðurs
dýrari’ er en sunna löðurs.“
42.
Meðan þessi skemmti skýr mér skoðun vina,
kristals eg í hvelfinguna
klára leit með hreyfing muna.
43.
Tarik eg og Tirsa sá er tryggðum sættu.
Blíð með dyggða blómgar gnóttir
bróður sæla mín[s] var dóttir.
44.
Hjartadyggðug hjón í sínu húsi dvöldu.
Gjafir þau með geði mildu
greiddu af helgri ástarskyldu.
45.
Sex nýgift eg sá þar hjón með sjáleik ungum,
auð sem höfðu að hrósa ringum,
hin fyrrnefndu stóðu’ í kringum.
46.
Hjón ágæt, sem kærleiks kyntu kláran loga,
brúðhjónunum býttu’ án trega
brúðargáfu ríkulega.
47 Degi’ á blíða brúðkaups síns það bjuggu heiti.
Árlega að aðrir nyti
auðnu þeirrar sem þau hlyti.
48.
Hratt svo allir héldu burt úr húsi dýru,
glaðir af þeim gjöfum stóru.
Gefendurnir eftir vóru.
49.
Innir Tarik: „En hvað þú ert elskan blíða
yndisleg, sem geð með gæða
gefur besta skartið klæða.
50.
En þú sjálf þau einföldustu í fer klæði,
eins og liljur lands um hlíði
ljós í færi sína prýði.“
51.
Tirsa aftur Tarik við svo tigin ræðir:
„Mitt ert þú inn menntafríði
mæta skart og heiðursprýði.“
52.
Ansar Tarik: „Ei þarf rósin yndissama,
aðfenginn að öðlast [lj]óma
af því sjálf ert drottning blóma.“
53.
„Æ, mér hældu ei svo mikið,“ auðs kvað tróða.
„Annað mér til yndis gæða
eg nú finn en skemmtan ræða.
54.
Meir er fjólan lystileg er lít eg þarna
dalnum í með fegurð firna
frá sér leiða gjörir spyrna.
55.
Frekt áhrifið fær mig hennar fegurð ofur,
rósa grösum hulið hefur
höfuð sitt og ilman gefur.“
56.
Hér þó gjöri hjónin vænu hjalið lengja,
Herjans fugl ber orku öng[v]a
áfram gá með hróðrar söngva.


Athugagreinar

1.
hlíð auðar: kona
1.
fugl Nýráðs: skáldskapur
3.
vegur nábeðs: æviskeið
5.
fugl Óðins: skáldskapur
6.
heiður menja: kona
7.
hornaseyra Hárs: skáldskapur
7.
reisendur: ferðalangar
9.
eyðir hringa: maður
10.
salur sunnu: himnaríki
12.
lægis funi: gull
15.
brúnasteinn: auga
15.
sprund: kona
16.
eik pálmaviðar: kona
16.
rein auðar: kona
17.
svinnur: ágætur
18.
blys sjónar: augu
18.
bróðir dauða: svefn
18.
skorð skrúða: kona
20.
gargan: skrifli (hér: höggormur)
41.
sunna löðurs: gull
42.
muni: hugur
53.
tróða auðs: kona
56.
fugl Herjans: skáldskapur
56.
hróður: frægð, lof