Feðurnir áttu fagurt land | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Feðurnir áttu fagurt land

Fyrsta ljóðlína:Mörgum virðist eyjan okkar smá
bls.11. árg. bls. 62–63
Viðm.ártal:≈ 2000
Tímasetning:2011
Mörgum virðist eyjan okkar smá,
örfoka, sorfin, hrjáð af snæ og eldi
og margir glópar glýju í augun fá
ef gylltar stjörnur skína á bláum feldi.
Þeir vilja ólmir vita þetta land
sem veika eind í keðju sterkra þjóða,
þeir tala um sameiningu, bræðraband
er blessun fylgi og sé af hinu góða.
Þeir trúa að firn af valdi, auði, afli
Íslands bíði í stórveldanna tafli.

Er tryggt að litla landið mitt og þitt
til lengdar slíkra gæða fengi notið?
Hvenær hefur valdið vígi sitt
til velferðar þeim smáa niður brotið?
Hvenær hefur frek og fjölmenn þjóð
til fleiri miðlað því, sem unnist hefur?
Hvert land sem drakk í styrjöld banablóð
sín börn með grimmd um stórar fórnir krefur.
Þú veist að það er enginn annars bróðir
ef etja kappi sterkar, ríkar þjóðir.

Láttu þig aldrei ginna glópa þá
sem gullsins leita í stórveldanna sjóðum.
Hvenær mun sá fé sitt aftur fá
sem fórnar hiklaust eignum sínum góðum?
Hver vill binda þessa frjálsu þjóð
við þrælsins ok á stóriðjunnar klafa?
Hver lýtur þeim, er bjóða silfursjóð
ef sóun fagurs lands er þeirra krafa?
Valdhafi sem velferð lands síns gleymir
vinnur sér smán, er sagan lengi geymir.