Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Hjá öldruðum

Fyrsta ljóðlína:Ég lít hér í dag á lúnar hendur
Viðm.ártal:≈ 2025
Tímasetning:2013
1.
Ég lít hér í dag á lúnar hendur,
sem langt hafa dagsverk þreytt.
Háaldursþroski á hugans lendur
hófsama kyrrð fær breitt.
Hélaðir lokkar við ljósa vanga
leika í kvöldsins ró.
Hugskotið elur þó hægist ganga
heilan minningasjó.
2.
Ylríkar myndir frá æskudögum
una nú hæst í sál.
Leiðarmerki frá lífsins högum
lýsa upp sagnamál.
Svörin mörgu er sinnið geymir
sitja þó oft um kjurt.
Reikul samtíð er gömlum gleymir
getur ei nokkurs spurt.

3.
Stofnanir kynslóða stöðugt hamla
og staðbinda þroskann mest,
einangra skynlaust unga og gamla,
sem eiga þó saman best.
Hví skal arf vorra feðra fergja
og fjötra samskiptamál?
Mega ei lengur börn vor bergja
brjóstvit úr öldungs sál?
4.
Öldruð kenndu mér ungum bögur
þá undi við þeirra kné.
Litríkar sagnir, ljóð og sögur
létu þau glöð í té.
Þau kveiktu í brjósti kvæðaþrána
er kynti svo bragaglóð.
Einmitt þannig skal ungum lána
arfinn í ferðasjóð.

5.
Þá ævisólin á vesturvegi
til viðar að síga fer.
Alheimsrökin að entum degi
oftar að huga ber.
Hvað leynist bak við tímans tjöldin,
er takmörk og endir þar?
Lítum oss nær við ljósavöldin
á lífríkis glögga svar.
6.
Lífgjafaskinið frá ljósi hæða
lykur um myrkan geim,
til þess að verma, gefa og græða
gróður um okkar heim.
Er höfug tárin frá himinlindum
hníga á jarðarbeð,
þá ljómar foldin af ljósum myndum
og lífsundrið hefur skeð.
7.
Það fræ, sem að hausti fólst í leynum,
í frosthörkum vetrar kól.
Vitjar svo lífsins í vorsins þeynum
vakið af himinsól.
Ber það ei til vor bjarta daga,
bylgju af lífsins náð?
Eða var þetta okkar saga
ofin í blóm og skráð?