Ísland | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ísland

Fyrsta ljóðlína:Þú álfu vorrar yngsta land
Höfundur:Hannes Hafstein
bls.10
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) þrí- og ferkvætt aabbcc
Viðm.ártal:≈ 1875

Skýringar

Birtist upphaflega í Suðra 30 mars 1885.
Þú álfu vorrar yngsta land,
vort eigið land, vort fósturland!
Sem framgjarns unglings höfuð hátt
þín hefjast fjöll við ölduslátt.
Þótt þjaki böl með þungum hramm,
þrátt fyrir allt þú skalt, þú skalt samt fram.

Allt verður eiga vaxtar-ár,
þín voru tíðum hörð og sár;
en ungra deyfð og barnabrek
oft bera vott um hulið þrek.
Og því næst kemur þroskans tíð,
þá er að ganga fram í tímans stríð.

Hver tindur eygir upp og fram,
hver útnesskagi bendir: fram,
þú vilt ei lengur dott né draum,
vilt dirfast fram í tímans straum.
Lát hleypidóma’ ei hræða þig.
Haltu fram beint á sönnum frelsis stig.

Þú álfu vorrar yngsta land,
vort eigið land, vort fósturland!
Þú gafst oss fagurt móðurmál
og mótað hefir vora sál.
Þú elur þá, sem elskum vér.
Allt, sem vér höfum, höfum vér frá þér.

Það er því von þig elskum vér,
fyrst allt oss knýtir fast að þér,
þín framtíð eins vor framtíð er,
hvern framahnekki sérhver ber.
Ber hátt upp fjalla-höfuð þitt.
Hver eftir mætti vinna reynir sitt.