Smalastúlkan | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Smalastúlkan

Fyrsta ljóðlína:Hér bjó hún áður, unga dalamærin,
Höfundur:Friðrik Hansen
bls.21-22
Viðm.ártal:≈ 1900–1920
Tímasetning:1915
Hér bjó hún áður, unga dalamærin,
ómaði stall af stalla röddin hreina.
Stóð undir hólnum smái smalabærinn,
smeygði sér undir rjáfrið fjallablærinn,
kyssti þar löngum litlu smalameyna.

Þú hefur sjálfsagt séð hana hjá ánum
sumarið langa, þegar blómin anga.
Hún var svo létt að tifa á litlu tánum,
trítla um holtin, stökkva keldu í flánum,
vön við að ganga grýtta slóð og langa.

Ekkert hún hræddist, þó að þokan slæddist,
þá var hún vön að hóa ánum saman.
Óþekka kindin engin burtu læddist.
En eitt var það þó, sem smalamærin hræddist:
Af huldufólki hafði´ún lítið gaman.

Hátt upp´í brúnum ægði Álfasteinninn,
undrabær var hann, mosaþakið bar hann.
Þar átti líka heima huldusveinninn.
Hraðara fór hún þar en eltur hreinninn.
Henni var sagt svo illt um álfaskarann.

Margt var til yndis upp´ í grænum hlíðum
iðandi lækur, blóm og fuglasöngur.
Margt er að sjá í sumardalnum fríðum.
Sólskinið ljómar yfir heiðum víðum.
Margt er frá sumri að segja undir göngum.

Nú er ´ún horfin, hýra dalamærin,
hóandi bergmál dautt við Álfasteina.
Liggur í rústum litli smalabærinn,
líður um tóftarbrotið fjallablærinn
og harmar þar löngum horfnu smalameyna.