Þorsklof | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þorsklof

Fyrsta ljóðlína:Heill sé þér, þorskur, vor bjargvættur besti
Höfundur:Hannes Hafstein
bls.167–168
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1881

Skýringar

Þegar Hannes orti þetta ljóð var flattur þorskur með kórónu merki Íslands í ríkisskildinum.
1.
Heill sé þér, þorskur, vor bjargvættur besti,
blessaða vera, sem gefur þitt líf
til þess að verja oss bjargræðis bresti,
bágstaddra líknarinn, sverð vort og hlíf.
2.
Heyrðu vort þakklæti, heiðraði fiskur,
hertur og saltaður, úldinn og nýr!
Fyrir þinn verðleika fyllist vor diskur,
frelsi og þjóðmengun til vor þú snýr,
3.
því ef þú létir ei lánast þinn blíða
líkam við strendurnar, hringinn í kring,
horaðir, svangir vér hlytum að stríða
og hefðum ei ráð til að ala vort þing.
4.
Þú ert oss einlægust þjóðfrelsishetja,
þú ert sem dreginn úr almennings sál.
Mynd þín og fyrirmynd fögur oss hvetja,
föðurlandsástinni hleypa í bál.
5.
Þú ert oss sjálfkjörið þjóðernismerki,
það finnur stjórnin, sem gildi vort veit.
Fánamark sértu að framsóknarverki,
fremstur í andlegra hermanna sveit
6.
Sjáðu, hún lyftir þér, fulltrúinn fiska,
flöttum á tígurlegt alþingishús,
frá þér skal streyma þar virðing og viska,
veit hún,að Eykonan lýtur þér fús!
7.
Ljóma þú átt þar úr ljósfögrum málmi
líta á annara fulltrúa starf,
leiða þá fram undir hátignar-hjálmi,
hugmóð og speki þeim gefa í arf.
8.
Þú átt að kenna oss, háttvirta hetja,
háleita þolgæðið, sem þér er hjá,
að láta þá slægari flá oss og fletja,
og fæða þá sterkari sjálfum oss á,
9.
kenna oss þegjandi fram oss að flýta,
fegnir þeim sílum, sem gefast í bráð,
en síðan með fögnuði beitu þá bíta,
sem beitt er á færið af stjórnvisku’ og náð.
10.
Heill sé þér,þorskur,vor bjargvættur besti,
björg vor í frelsis og menningar skort’,
fyrirmynd ágætis, magngjafinn mesti,
margreynda,lofkrýnda þjóðmerki vort!!