Haust | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Haust

Fyrsta ljóðlína:Haustið er tími tregans
bls.34--35
Viðm.ártal:≈ 0

1.
Haustið er tími tregans
og treginn er þáttur sá
í eðli voru sem ómar
af angurværri þrá.
2.
Þegar sá þáttur vaknar
er þráin djúp og sár.
Blygðastu þín ekki bróðir
þótt bliki á hvarmi tár.
3.
Því tárið sem titrar á vanga
talar þeirra mál
sem eiga sér öðrum fremur
eilífa draumasál.
4.
Og þeir eru sífellt að sakna
sumarsins frá í gær
vina sem hafa horfið
og hennar sem var þeim kær.
5.
Báran var blíð í sumar
en byltist nú yfir sker.
Hún sem þú einni unnir
er orðin fráhverf þér.
6.
En blygðastu þín ekki bróðir
þótt bliki á hvarmi tár
því haustið er tími tregans
og treginn er jafnan sár.