A 191 - IIII [4.] sálm. Cum invocarem | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

A 191 - IIII [4.] sálm. Cum invocarem

Fyrsta ljóðlína:Bænheyr mig, Guð, þá beiði eg þig
Viðm.ártal:≈ 0
IIII [4.] sálm. Cum invocarem
Er bænar sálmur í ofsókn og mótgangi, að menn álíti Guð og stundi meir upp á það himneska heldur en upp á jarðneska hluti.
Með lag: Frá mönnum.

1.
Bænheyr mig, Guð, þá beiði eg þig,
blessun mín og réttlæti,
sem í hörmungum huggar mig,
heyr mig, eymd mína bætir.
Þér menn, hvað lengi mig líti þér,
leggist í það sem ekkert er,
álygi yður kætir.
2.
Merkið að Drottinn ástmann sinn
undarliga hér færir,
hvenær sem eg bið Herra minn
heyrir mig vel og nærir.
Reiðist, en sjáið þó við synd,
sjálfir talið við yðar lund,
í hvílu hógværð lærið.
3.
Offrið réttlæti alla tíð,
á Drottin skuluð vona,
hins spyr margur af heimsins lýð,
hvör mun oss gæsku sýna?
Þinnar ásjónu lát þú ljós,
ljóma nú, Drottinn, yfir oss,
hugga svo þjóna þína.
4.
Hér af fagnar mitt hjarta mest,
hinir þá velferð lofa,
af korni og víni eiga flest,
ókvíðinn skal eg sofa.
Öll mín von, Drottinn, er á þig,
aðstoð þín vel staðfestir mig,
vernd og hjálp vilt mér gefa.
5.
Föður, syni og anda sé
æðst dýrð um jörð og himin,
eins sem hann var að upphafi
án enda verði framinn.
Kenn oss að halda kristinn sið,
kvittast og skiljast syndir við,
sá það vill syngi amen.