A 147 - Út af lyklavaldi kristiligrar kirkju og heilagri aflausn* | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

A 147 - Út af lyklavaldi kristiligrar kirkju og heilagri aflausn*

Fyrsta ljóðlína:Drottinn segir: „Svo sannliga
bls.XCIr-v
Bragarháttur:Hymnalag: aukin stafhenda
Viðm.ártal:≈ 0
Út af lyklavaldi kristiligrar kirkju og heilagri aflausn
Má syngja sem: Halt oss, Guð, við þitt helga orð.

1.
Drottinn segir: „Svo sannliga
sem eg lifi ævinliga,
ei vil eg dauða syndugs manns
heldur iðran og sáluhjálp hans.“
2.
Postulum sínum Kristur bauð:
„Predikið guðspjöll allri þjóð,
segið þeim aflausn syndanna,
sem iðrast, trúa og af láta.
3.
Þeim sem forlátið syndirnar,
sannliga skulu tilgefnar,
hvörjum sem við þær haldi þér,
hjá Guði eru þeir ókvittir.
4.
Leyft skal það allt sem leysi þér,
líka bundið hvað bindið hér,
þá himnalykla hafi á jörð
hvörjir sem mitt kenna lífsins orð.
5.
Þeim þér kunngjörið þetta traust,
þá hefi eg með dauða leyst,
og trúa yðar vitni vel,
þeir eru leystir af synd og kvöl.“
6.
Þá kvittan les oss kennimann,
Kristur leysir oss fyrir hann,
hreinsar af synd og helgar menn,
hans er svo verkfæri þénarinn.
7.
Þó mörg sé sök og syndin stór,
samt er forlátinn kvitt og klár,
fyrir aflausnar afl og rétt,
því af Guðs syni hún er innsett.
8.
Yfir þeim prestur hefur hönd,
Herrann þann leysir af allri synd,
með sínu blóði sjálfur þvær,
sá því rétt trúir kvittun hann fær.
9.
Heilagt lyklavald heiðra skalt,
hér bindur það og leysir allt,
sönn kirkja það á síðu ber
sem Jesú Kristí kær brúður er.
10.
Hvörn syndin kvelur og særir fast
í samviskunni örvilnast,
með trú aflausnar leita skal,
líknin svo huggar best auma sál.
11.
Heiður og lof sé, Herra, þér,
heilaga aflausn innsettir,
lýð þínum náð og gæsku gef,
girnust vér ei önnur aflátsbréf.

* Þetta er bæði bálksheiti (þ.e. sálmar „Út af lyklavaldi kristiligrar kirkju“) og nafn á fyrsta sálminum í þessum bálki.