Tristramskvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Tristramskvæði

Fyrsta ljóðlína:Tristran háði bardagann
bls.141–151
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Sagnadansar

I

1.
Frúr og herlegir sveinar
héldu vel sína trú.
Tristram framdi bardagann
við Lundúnabrú.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
2.
Tristram háði bardagann
við heiðin hund,
margur fékk af þeirra fundi
blóðuga und.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
3.
Hann var borinn á skildi fram
sá ungi mann,
margir buðust læknarar fram
að græða hann.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
4.
Tristram bjó til sendimenn
með skeiður þrjár:
„Segið henni björtu Ísodd
eg sé sár."
Þeim var ekki skapað nema skilja.
5.
Tristram bjó til sína menn
með stálið bjart:
„Blátt skal merkja jómfrúr ferð
en ekki svart."
Þeim var ekki skapað nema skilja.
6.
Lenda þeir nú skipunum
við fagran sand,
so ganga þeir allir upp á
þetta land.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
7.
Axla þeir yfir sig
safalaskinn,
so hæversklega ganga þeir
í höllina inn.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
8.
Fram koma þeir sendimenn
og sögðu frá:
„Tristram ungi yðar vildi
fundi ná."
Þeim var ekki skapað nema skilja.
9.
Ísodd inn í höllina gengur
fyrir kónginn sinn:
„Viltu láta græða hann Tristram
frænda þinn?"
Þeim var ekki skapað nema skilja.
10.
Enn so svaraði kóngurinn,
hann var ódeigur:
„Þú þarft eigi að græða hann Tristram,
hann er feigur."
Þeim var ekki skapað nema skilja.
11.
Enn so svaraði kóngurinn
í annað sinn:
„Græða vildi eg láta hann Tristram
frænda minn."
Þeim var ekki skapað nema skilja.
12.
Græða vildi eg láta hans Tristrams
blóðuga und
ef vissi eg það þú kæmir heil
af ykkar fund."
Þeim var ekki skapað nema skilja.
13.
„Guð mun ráða afturkomu,"
sagði frú,
„eg mun ekki á þessari stundu
gleyma trú."
Þeim var ekki skapað nema skilja.
14.
Síðan hrinda þeir skipunum fram
á saltan geim,
so sigla þeir til Tristrams
landa heim.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
15.
So siglir hún bjarta Ísodd
með seglin blá,
allvel henni byrinn blés
í daga þrjá.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
16.
Úti stóð hún svarta Ísodd,
hún sór við trú:
„Svört eru segl á skipunum
þeim eg sé nú."
Þeim var ekki skapað nema skilja.
17.
En so svaraði svarta Ísodd
í annað sinn:
„Svört eru segl á skipunum
eg sé enn."
Þeim var ekki skapað nema skilja.
18.
Tristram snerist í sinni sæng,
so sárt hann stakk,
heyra mátti mílur fimm
hans hjartað sprakk.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
19.
Lenda þeir skipunum
við fornan sand,
þar sté frú bjarta Ísodd
fyrst á land.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
20.
Ísodd heim frá sjónum gengur,
gatan er þröng,
einatt heyrði hún pípnahljóð
og fagran söng.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
21.
Ísodd heim frá sjónum gengur,
gatan er breið,
einatt heyrði hún pípnahljóð
á veginum þeim.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
22.
Til orða tók hún bjarta Ísodd
búin með seim:
„Eigi skyldi hann Tristram dauður
ég kem heim."
Þeim var ekki skapað nema skilja.
23.
Prestar stóðu á gólfinu
með kertaljós,
drottning niður að líki laut
so rauð sem rós.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
24.
Margur þolir í heiminum
so sára nauð,
drottning niður að líki laut
og lá þar dauð.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
25.
Prestar stóðu á gólfinu
og sungu sálm,
þá var hringt yfir báðum líkum
Rínarmálm.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
26.
Til orða tók hún svarta Ísodd,
hún sór við trú:
„Þið skuluð ekki njótast dauð
ef eg má nú."
Þeim var ekki skapað nema skilja.
27.
Það var henni svörtu Ísodd
angur og sút,
bæði voru líkin borin
í kirkju út.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
28.
Það var henni svörtu Ísodd
angur og mein,
bæði voru líkin sett
í helgan stein.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
29.
Það var henni svörtu Ísodd
enginn friður,
bæði voru líkin sett
í steinþró niður.
Þeim var ekki skapað nema skilja.
30.
Uxu upp þeirra af leiðunum
lundar tveir,
fyrir ofan miðja kirkju
mættust þeir.
Þeim var ekki skapað nema skilja.

II
Svo er hún fögur sem sól í heiði renni
augum voru sem baldinbrá,
ber þar ekki skuggann á,
og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
1.
Tristram háði bardagann
við heiðinn hund,
margur fékk af þeirra fund
blóðuga und.
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
2. Þá var hann á skildi borinn
sá ungi mann,
margir buðust læknarar
að græða hann.
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
3.
Hann kvaðst ekki græðast vilja
og sór við trú,
„utan hún Ísodd græði mig
hin bjarta frú.“
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
4.
Tristram klæðir sína menn
og skeiðir þrjár:
„Segið henni Ísodd
að eg sé sár.“
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
5.
Tristram klæðir sína menn
með stálið glatt:
„Blátt skal segl í jómfrú ferð.
[en ekki svart.]
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
6.
Fram komu þeir sendimenn,
sögðu frá:
„Tristram ungi vill yðar
fundi ná.“
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
7. Ísodd inn í höllina gekk
fyrir kónginn sinn:
„Viltu láta græða hann Tristram
frænda þinn?“
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
8.
Til orða tók hann kóngurinn,
hann var so reiður:
„Hvað mun þurfa að græða hann
því hann er feigur.“
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
9.
„Græða vilda eg láta hann Tristram
blóðugri und
ef kemur þú aftur, stoltarfrú,
af ykkrum fund.“
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
10.
„Guð mun ráða afturkomu,“
sagði frú,
„eg skal ekki á þessari stundu
gleyma trú.“
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
11.
Ísodd sór so mikinn eið
í kóngsins höll,
kaupa vildi hún Tristrams líf
fyrir löndin öll.
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
12.
Bundu þau segl við húna,
sem jómfrúin bauð,
finna vildi hún Tristram unga
í sinni nauð.
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
13.
Út gekk hún svarta Ísodd
og sagði frá:
„Svört eru segl á skipunum,
en ekki blá.“
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
14.
Inn kom hún svarta Ísodd
í annað sinn:
Svört eru segl á skipunum seglin,
þau eg sé.“
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
15.
Og so snerist hann Tristram ungi
í sænginni hart,
heyrast mátti mílur fimm
hans hjarta sprakk.
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
16.
Til orða tók hún bjarta Ísodd,
við sveina sín:
„Ekki skyldi hann Tristram dauður
er eg kem heim.“
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
17.
Ísodd sig frá skipum gengur,
gatan er greið,
einatt heyrði hún klukknahljóð
á sinni leið.
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
18.
Ísodd sig í höllina gekk
með múga manns,
prestar sungu prócessíu
yfir líki hans.
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
19.
Margur hlýtur í heiminum
so sára neyð,
drottningin laut að líkinu niður,
hún lá þar dauð.
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
20.
Og so svaraði hún svarta Ísodd,
hún sór við trú:
„Þið skuluð ekki njótast dauð
ef eg má nú.“
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
21.
Það varð henni svörtu Ísodd
mest að sút,
bæði voru líkin borin
í steinþró út.
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.
22.
Spruttu af þeirra leiðunum
lundar tveir,
fyrir ofan miðja kirkju
mættust þeir.
Og er sá sæll sem sofna náir hjá henni.

III
1.
Tristran háði bardagann
við heiðinn hund.
Þar hlaut margur blóðuga und
af þeirra fund.
Þeim var ekki skapað nema að skilja.

2.
Þá var hann á skildi borinn,
sá ungi mann.
Margur bauð sinn læknarinn
að græða hann.
3.
Hann vill ekki græðslu þiggja,
hann sór við trú:
„utan hún Ísodd græði mig
sú bjarta frú.“
4.
Tristran sendi sína menn
og skeiður fimm:
„Segið henni björtu Ísodd hún komi
á fundinn minn.“
5.
Tristran sendi sína menn
og skeiður þrjár:
„Segið henni björtu Ísödd
eg sé sár.
6.
Svo skal búa hennar ferð
sem segi eg frá:
Blá skulu segl á skipunum
sem hún er á.“
7.
Fram komu þeir sendimenn
og sögðu frá:
„Tristran ungi vildi yðar
fundi ná.“
8.
Ísodd sig í höllina gekk
fyrir kónginn sinn:
„Villtu ekki láta græða hann Tristran,
frænda þinn?“
9.
Til orða tók hann kóngurinn
og varð við reiður:
„Hann þarf ekki græðslu við,
því að hann er feigur.“
10.
Svo var henni björtu Ísodd
mjúkt til máls,
báðar lagði hún hendurnar
um kóngsins háls.
11.
„Gjarnan vilda eg láta græða Tristran
af sárri und,
ef eg vissi að þú kæmir heil aftur
á minn fund.“
12.
„Guð má ráða afturkomu"
sagði frú,
„ei mun eg í þessari ferð
gleyma minni trú.“
13.
Kastaði hún yfir sig safalaskinni
með sorg og sút.
Síðan gekk hin ríka frú
á bryggjur út.
14.
„Svo skal búa um mína ferð
sem segi eg frá.
Blá skulu segl á skipinu,
sem eg er á.“
15.
„Vindið upp segl við húna.
sem frúin bauð.
Hitta vill hún Tristran unga
í sinni nauð.“
16.
Átján dægur
á leiðinni var,
þó gaf þeim allvel
byrinn á haf.
17.
Til orða tók hún svarta Ísodd
að hún gekk inn:
„Svört eru segl á skipunum,
sem hér leggja inn.“
18.
Til orða tók hún svarta Ísodd
í annað sinn:
„Svört eru segl á skipunum,
sem hér leggja inn.“
19.
Til orða tók hún svarta Ísodd
hún sagði frá:
„Svört eru segl á skipunum,
en ekki blá.“
20.
Tristran snerist til veggjar
svo hart hann stakk:
heyra mátti mílur þrjár,
hans hjartað sprakk.
21.
Lenda þau skipunum
við svartan sand,
báru hana björtu Ísodd
fyrst á land.
22.
Löng var leiðin,
en gatan var breið.
Einatt heyrði hún klukknahljóð
á sinni leið.
23.
Löng var leiðin,
en gatan var þröng.
Einatt heyrði hún klukknahljóð
og fagran söng.
24.
Til orða tók hún bjarta Ísodd,
hún leit í stein:
„Ekki skyldi hann Tristran dauður,
þá eg kem heim.“
25.
Ísodd sig í kirkjuna gekk
með hundrað manns.
Prestar sungu prócessíu
yfir líki hans.
26.
Ísodd niður að líki lýtur
rauð sem rós.
Prestar stóðu á kirkjugólfi
með kertaljós.
27.
Ísodd niður að líki lýtur
í annað sinn.
Prestar stóðu á kirkjugólfi
með kertaljósin fimm.
28.
Margur lifir í heiminum
með minni nauð.
Hún Ísodd niður að líki lýtur
og lá þá dauð.
29.
Það var henni svörtu ísodd
angur og sút,
tvö voru þá líkin borin
úr kirkju út.
30.
Til orða tók hún svarta ísodd
hún sór við trú:
„Þið skulið ekki njótast dauð,
megi eg nú.“
31.
Ausin voru þau moldunni
fljótt og ótt.
Sínu megin kirkjunnar
lá þá hvort.
32.
Runnu upp af leiðum þeirra
lundar tveir.
Upp af miðri kirkjunni
mætast þeir.
Þeim var ekki skapað nema að skilja.