Hendur og orð (I. ljóð) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Hendur og orð (I. ljóð)

Fyrsta ljóðlína:Fjársjóður lífsins verður ekki allur sannreyndur í hinzta andvarpinu
bls.9–10
Bragarháttur:Óháttbundið ljóð
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1959
Fjársjóður lífsins verður ekki allur sannreyndur í hinzta andvarpinu
eða í sjálfsmorðssælu unglingsins
eða hinni einróma reynslu hvíts eða svarts hörunds,
hann afhjúpast ekki allur í þeirri andrá þegar storminum lýstur á
og ekki að fullnuðum sigri
eða langþráðum ósigri.
Hann glitrar hvorki allur í ákvörðun morðingjans
né uppstigningu mannvinarins.

Tilveran mælist ekki á mælikvarða guðs
á mælikvarða stjarnanna
á mælikvarða eilífðarinnar.
Líf þitt stendur andspænis dauðanum
en ekki í skugga dauðans.

Eyðimörk og úthaf og frumskógur
heimskaut hafsbotn upploft:
þegar þær slóðir verða þínar slóðir
kunna þær að veita þér fjölmargan sannleik djúpan og háan.
En sá sannleikur
sá mælikvarði
sá fjársjóður
er ekki Sannleikurinn Mælikvarðinn og Fjársjóðurinn.