Ljóð um sýnileika | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ljóð um sýnileika

Fyrsta ljóðlína:Strendurnar sjá ekki neitt.
bls.14. árg 2016, bls. 114–116
Bragarháttur:Óháttbundið ljóð
Viðm.ártal:≈ 2025
Tímasetning:2016
Strendurnar sjá ekki neitt.
Vötnin eru blind. Stjörnurnar eru götin í sigtinu og það styttist í dagsljósið.
Ég sé mig sjá þig sjá mig einsog ég vil hafa mig og ég sé það er harla gott. Harla gott á vinstri vanga. Harla gott spegil ofan í spegil og gleraugnalaus í lo-fi filternum, með grennra mitti og gylltari húð, breiðari augnabrúnir og tónaðri upphandleggi.
Massa massa.
Við grettum okkur til að breiða fyrir andlitin; berum okkur svo við sjáumst ekki; undirstrikum tilvist okkar í von um að gleymast; störum niður heiminn sem lítur aldrei undan án þess að virða okkur viðlits.
Ég sé augun blá, einsog ég vil hafa þau, augun brún, einsog ég vil hafa þau, augun litrík og djúp einsog samanfallin svarthol í nálægum vetrarbrautum.
Einsog bara.
Einsog bara.
Einsog ég vil hafa þau, einsog náttúruundrin, viðundrin, forundrin, einsog hegelsk samræðuvísindi og síðmódernísk orðræðu­stef.
Massa massa.
Þú vilt bara hafa hárið slegið. Þú vilt bara ráða þér sjálf. En við dyrnar stendur móðir þín með teygjur, spangir og spennur. Við dyrnar stendur spegillinn; ofan í spegilinn; handan við dyrnar endurspeglunin og augu sjáandans, hvort á sínum forsendum.
Ég sé grasið gróa og grundirnar. Sé fjöllin fjalla, hafið hafa, engin engjast, veröldina opnast og lokast einsog ég vil hafa hana, endurnærða einsog ég vil hafa hana. Ég sé fjöllin rísa úr hafinu, þau eru mér að skapi; sé hafið drekkja heiminum, mér til stundargamans en aldrei skal ég hlæja. Ekki á meðan ég lifi færðu mig til að hlæja.
Hafið sér ekki neitt. Og fjöllin sjá ekki neitt. Annaðhvort líta þau undan eða þau eru ekki með augu í höfðinu eða þau eru ekki með höfuð á öxlunum en þau eru áreiðanlega með axlir ­— þær sökkva í hafið, einsog ég vil hafa það, ekkert stendur uppúr nema augun og við neyðumst til að anda í gegnum sjáöldrin.
Massa massa.
Ég sé þig sjá mig einsog ég vil sjá mig og ég sé þig einsog ég vil sjá þig, þú sérð mig einsog aðrir sjá mig. Við sjáum ekkert leyfislaust; virðum ekkert fyrir okkur nema útundan okkur, af virðingu við veröldina og fyrirbærin sem í henni lifa. Ég sé seglskip sökkva ofan í sjóndeildarhringinn; ég sé kellingar skoppa á vatnsyfirborðinu, skoppa og drukkna, skoppa og rísa upp; ég sé marflær stökkva á flótta þegar grjótum er lyft og augun bora sig í svartan sandinn. Marflær sjá ekki neitt; kellingarnar eru blindar og augu seglskipanna tilheyra ekki lengur seglskipunum.
Ég er með vömb sem stingur í augun, rísandi kollvik sem stinga í augun, sár og bletti og bólur sem stinga í augun, blóðugar neglur sem stinga í augun. Ég er með vökustaura sem stinga í augun, grillspjót og tjaldhæla sem stinga í augun. Bauga sem stinga í augun, sprungnar æðar sem stinga í augun, vögl sem stinga í augun.
En ég sé mig. Og þannig vil ég hafa það.
Massa massa.
Ég er auðsjáanlegur. Leynist hvergi. Sting úr mér augun.
Ég fel mig líka ef ég fel mig. Legg á flótta ef ég legg á flótta. Dreg húfuna niður fyrir augu, niður fyrir hné, sting fingrunum í augun og set á mig hljóðeyðandi heyrnartól. Ég er ekki til, ég er á leiðinni í burtu, þar er ég ekki til heldur.
Þú sérð mig líka og leggur á flótta. Felur þig mér og fyrir mér.
Ég er hávaxinn einsog ég vil hafa það. Með nístandi fagurt augnaráð einsog ég vil hafa það. Allt er einsog ég vil hafa það.
Massa massa.
Þú ert fíngerð og heilbrigð einsog ég vil hafa það og sérð mig einsog ég er, einsog ég vil vera, ekki einsog ég verð eða gæti verið. Ég sé þig vera einsog ég vil hafa það, sé þig sjá mig einsog þú vilt hafa mig, sé mig sjá þig sjá mig sjá þig einsog við viljum vera, verða, hafa verið, munu verða, hafa orðið.
Fjöllin rísa upp úr bókunum, upp af síðunum, einsog ég vil hafa þau, himinblá og grátleg einsog eilífðin. Hafið drekkir bókunum, allt einsog ég vil hafa það, stingur í augun allt eftir mínu höfði, það verður að hafa það, blátt einsog óbeisluð hugsun, einsog fegurðin sem býr í sjáaldri augans, auga sjáandans, einsog ég vil hafa það. Ég sé fjöllin sem skópu manninn í sinni mynd; myndirnar sem skópu manninn; blind fjöll á flótta. Ég er í mynd. Þú ert í mynd. Það eru allir í mynd, allir með húfuna fyrir andlitinu, bakfjall í framrassinum og timburmenn.
Harla gott.
Og svo framvegis og svo framvegis.