Skipaskaði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Skipaskaði

Fyrsta ljóðlína:Mar, þú hefur hingað fleygt
bls.323
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fer- og þríkvætt aBaBcDcD
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1922
Ávarp

Finst þér, Ægir, einkisverð
öll þín gengna prýði?
Nú er eins og orma mergð
um þig kvikan skríði –
þar sem fyrr var sjón að sjá
siglu-hvíta gamma,
lætur Dumbur dröfnum á
dökkva nökkva þramma.

I.
Mar, þú hefir hingað fleygt
hélugbörðum þínum,
formennskuna fjöru-heygt
fornu, í skipum sínum!
Flakir hér með skrámu og skarð,
skrokk og möstur brotin,
blásinn upp í beinagarð
báta gamli flotinn.

Öll fyrir skemstu ung og ný,
aflögð skrifli mögur
feigðar-stafi fallin í.
Fúnar ævisögur!
Eg skal út í vetrar-vind
varpa lotum kvæða,
meðan braka í beinagrind
byljir þeir sem næða.

II.
Þú hefir, bjúgi Byrðingur
breyst að svona flaki,
þegar náheims nyrðingur
náði á þér taki –
o’n úr sýn, í sandi og möl
sökkva þér, ert fýsinn –
molað hefir hlekk úr kjöl
hryggspennan við ísinn.

Þér varð, Snekkja, heilsuhallt
hamlið upp í drifin,
niður súð um sólborð allt
saumur hver er rifinn.
Svo hafa strengt á, straumföll þaug,
stuðlum, kröpp og bitum
hverja þína trausta-taug
teygt að hinstu slitum.

Knörr, þú áttir eitthvert sinn
ofþröngleitt í veri,
hefir brotið bóginn þinn
bagalega á skeri.
Þegar sérhvert far og fjöl
fram á sæ var dregið,
hefir þú á harðri möl
haltur síðan legið.

Þér hefir, Gnoð, á víðum ver
votur roðnað hlýri,
þegar hrönnin hjó af þér
höfuðbönd og stýri.
Síðan varst þú heima-hró
haug og slógi atað.
Hefir enga átt á sjó
eftir slysið ratað.

Þú hefir orðið, El-liðinn,
eins fyrir þungum sifjum,
þegar hjóst á húfinn þinn
holund inn úr rifjum.
Hefir ei orðið hugfallinn
hót, af slíku grandi,
þó að benin blæddi inn,
bjargað þér að landi.

Skúta, eftir missi manns
maraðir þú í kafi
inn á hlévík heima-sands.
hvelfd um fram á hafi –
stýrði þér um húmgan hyl
heim, í byl á jólum,
Hann, sem „dró sig dofinn til
Dóttur Jóns á Hólum“.

Ýms að baki eigið þið
ára-langan toga,
út á djúpsins ystu mið,
innst í fjarðar-voga.
Máttuð sum af víðis-vang
vingluð hallinranga,
eftir stuttan glæsi-gang,
götu Ormsins langa.

III.
Ykkur léði list og þrek
liðsmaðurinn dýri,
sem að höfuð-lausnum lék
lífs, við segl og stýri.
blindi-sjóa þurfti þá
þor og snild að máta,
þegar höfn og haf var spá
heimað-leiðin gáta.

Þá var uppi að fleyta fjöl
fagur-djarfur voði.
Héldust á uni hjálmunvöl
hönd og sollinn boði.
Sól-laus yfir sæ og vog
svarta-dægrin fóru,
óða-brim og bárusog
brautarmerkin vóru.


IV.
Þegar upp til birtu brá
bjart var út að líta,
fram á sævar sólskins-blá
svanavængi hvíta.
Blærinn lék við báru-köst,
bæði kvað og þagði.
Seglið ýrum-úðga vöst
undir vangann lagði.

Beggja-skauta byr var siglt,
blávatnaði strendur,
runnu að hafi fjöllin fylkt
fast á báðar hendur.
Skilaði inn um skerin auð –
skriðið austri flýtti,
þegar yfir söxin sauð
sjór, sem neglan spýtti.

O’n í djúpin aldan hnaut
uppvið báða stokka.
Hárrar siglu hvítu-skaut
himinglæfur brokka,
Mændu hæstu hranna-fjöll,
hurfu djúps að álfum,
stukku þverbrýnd þeysi-föll
þurrum kili hálfum.

V.
Ykkar, skriflin elli-rýr,
engum skálda-muna
uppi-fjöruð æfintýr
einsætt væri að gruna –
Hleypt með margan Hallfreðinn
hafið út’ á sundi,
eftir liðinn lávarð sinn
landvist skemmst sem undi.

Manstu eftir manni þeim
malarskip í kafi,
– átti af sætrjám ógengt heim
áralangt á hafi –
sem að farkost fékk þér hjá
forðum út í löndum?
Eins og leið þín eitt sinn lá
að ’ans heima-ströndum.

Lang-eygður, að líta á ný
ljóma af dalnum sínum,
hálfan daginn hékk upp’ í
höfuðbendum þínum.
Þaðan, gegnum vos og vind,
vonar-augum rýndi,
þar til heima-hagans tind
hafsbrún ysta sýndi.