Séra Valdimar Eylands heimsækir æskustöðvar sínar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Séra Valdimar Eylands heimsækir æskustöðvar sínar

Fyrsta ljóðlína:Vér sem byggjum út við Íshafs
bls.27-29
Viðm.ártal:≈ 1975
1.
Vér sem byggjum út við Íshafs
ægilegu strönd,
þekkjum engin yndislegri
eða fegri lönd
heldur en okkar ættarbyggðir,
aldna Húnaþing,
þegar eygló aldrei hverfur
út við sjónarhring.
2.
Ættarbyggðin okkar hefur
átt sér margan son
þann sem eigin braut sér brautir
brást ei hennar von,
flutti hennar hróður víða
hvar sem vegur lá,
kom svo heim með frægð og frama
fósturland að sjá.
3.
Einn af þessum óskabörnum
ert þú, Valdimar,
einn af þeim sem okkar hróður
út um heiminn bar,
Húnvetningur, hvergi smeykur
hvar um lönd þú fer.
Hvorki vér né Vínlendingar
viljum missa af þér.
4.
Þú ert valinn vinur beggja,
vinur báðum trúr.
Leist þér ekki landið fagurt,
losað fjötrum úr?
Heill þú farir héðan vestur,
heim með börn og frú.
Kom þú aftur öðru sinni,
úr því með oss bú.


Athugagreinar

Séra Valdimar Eylands frá Winnipeg heimsótti æskusveit sína, Víðidalinn í byrjun júlímánaðar 1965. Sunnudaginn 4. júlí flutti hann messu í Víðidalstungu, sem fjöldi manns hlýddi á, bæði úr dalnum og víðs vegar úr Húnaþingi. Hann lagði út af orðum Krists: Þér eruð vinir mínir, ef þér gerið það sem ég býð yður. Var ræða prests bæði snjöll og lærdómsrík. Meðal annars ræddi hann nokkuð um vináttuna almennt, bæði þeirra sem saman búa og í fjarlægum heimsálfum. Eftir messu var ekið að Víðihlíð, samkomuhúsi dalbúa, þar sem konur sveitarinnar höfðu búið gestum veislu. Höfðu þær valið veislustjóra Axel Guðmundsson, oddvita og bónda í Valdarási. – Veisla þessi var mjög skemmtileg. Var auðfundið , að hér fylgdi hugur máli að fagna heiðursgestinum, sem voru séra Valdimar, frú hans og börn. Þar fluttu skemmtileg minni og mátulega löng, þau Björn Daníelsson kennari, Dalvík, Jónína Líndal húsfrú Lækjarmóti og Sigvaldi Jóhannesson bóndi Enniskoti. Er borð voru upp tekin, þá var stiginn dans í salnum góða stund. Í samsætislok þakkaði séra Valdimar fögrum orðum þessar viðtökur er fornvinir hans veittu honum. Í þessari veislu flutti höfundur heiðursgestinum kvæðið.