Þriðja ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ésúsarrímur 3

Þriðja ríma

ÉSÚSARRÍMUR
Fyrsta ljóðlína:Nú skal byrja’ og nýjan kyrja braginn
bls.29–37
Bragarháttur:Stuðlafall – frumoddhent (frumstiklað) – síðtvíþætt
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Rímur
1.
Nú skal byrja’ og nýjan kyrja braginn,
ef ’in fríða auðarlín
á vill hlýða ljóðin mín.
2.
Blóðið flæði *brátt úr æðum Kvásis,
örðug glíman víst mér var
viður rímur Jesúsar.
3.
Nú er meir en nóg af leirbögunum,
fleina viðir, fljóð og svinn,
felli ég niður mansönginn.

> * * *
4.
Fyrri háttur falla knátti bragar,
fleinarjóður frí við synd
fjalls þar stóð á efsta tind.
5.
Og er Fjandinn fór til landa sinna
mettur dyggðum maður sá
mannabyggða leitar þá.
6.
Sem af hendi himna sendur jöfurs
kom hann fram með spámanns spjöll,
sperrtu þrammar út á völl.
7.
Gekk í kring og kenndi slynga speki,
syndaþjáðum líkn vann ljá,
lyndisbráður græddi þá.
8.
Hvar sem fór um foldar kórinn stóra
til hans lýður vaga vann,
vildi hlýða oft á hann.
9.
Á hans kenning kómu menn að heyra,
og á þessum álma-Frey(r)
alveg hlessa vóru þeir.
10.
Var í fasi voða gasalegur,
eins og valdið hefði hann
hjörva Baldur tala vann.
11.
Ekkert líkur er hinn ríkulegi
þeim skriftlærðu lýðum, sá
lítið kærði sig um þá.
12.
Mikið fagna máttu bragnar honum,
rimmu flagða reynirinn
rekkum sagði boðskapinn.
13.
Þannig seggjum *innti eggja viður:
*„Em eg sá sem um er spáð
*að eigi að sjá um þetta láð.
14.
Eg mun frelsa undan helsi ljótu
flestan lýð um foldar bý,
– firðar bíða eftir því.“
15.
Seggur þorinn sagðist borinn Guði.
Eru svona orðin hans:
„Eg *em sonur skaparans.“
16.
Kvað enn framar korða *ramur bendir
eins og hér á eftir fer,
Álma verum hlýða ber:
17.
„Þeir sem nú á þetta trúað geta
ekki rata í eymdinni
eða glata sálinni.
18.
Skulu þessir þegnar blessun hljóta,
einkar dælum er þeim vís
eilíf sæla í Paradís.“
19.
Bersynduga bragna hugarkléna
ekki forðast hefir hann,
hjá þeim borða stundum vann.
20.
Þeirri ást, sem aldrei brást hjá honum,
beitti’ ’ann þar hjá bófunum,
blíður var hjá þjófunum.
21.
Til sín alla ýta kallar þjáða:
„Komi hingað,“ kveður hann,
„hver sem þyngir ólukkan.
22.
Til mín skundi,“ tjáði þundur geira,
„hver sem þreytan þjáning bjó,
þeim ég veiti hvíld og ró.“
23.
Margt var það sem þessi maður sagði,
einkum beima beiddi hann
best að geyma sannleikann.
24.
Orðin sín ei sagði týnast mundu,
þó að veröld eyddist öll
eða sér umbyltu fjöll.
25.
Drottins kundur darra lunda fræddi.
Sá nam bjóða sannindin;
svona hljóðar kenningin:
26.
Sæll er hver er sálu ber volaða.
Himnaríki hann mun fá.
– Happi slíku hrósa má.
27.
Þeir eru sælir sem að skæla núna,
naumast ugga þurfa þeir;
þeir munu huggast síðar meir.
28.
Síst þarf kvarta sá hinn hjartahreini.
Drottinn mun hann sjálfan sjá.
– sá við una dável má! –
29.
Hver friðsemi sig við temur líka,
sælu varla vantar þann,
virðar kalla Guðs barn hann.
30.
Ef rétlætis ekki gætið betur
þeim sem læra lögmálið,
litlu nær er Guðsríkið.
31.
Að drepa mann var drengjum bannað áður,
hver sem þetta fremur frekt
fyrir rétti mætir sekt.
32.
En ég segi og þér megið hlýða,
*hver sem reiðist höldum hér,
hann um leið dóms sekur er.
33.
Hver sem segir sinn við eigin bróður:
„Ertu slæmur asni víst,“
ekki dæmist þessi síst.
34.
Guðleysingja gætir hrings hver nefnir
braut skal fara beinleiðis
bölvunar til Helvítis.
35.
Sá mun engjast undir spreng sárkvalinn
í Helvítis eldinum
á bálhvítum glæðunum.
36.
Vitið þér að þannig er og skrifað,
syndin þótti það allstór:
„það er ljótt að drýgja hór.
37.
En ég kenni, allir menn það viti,
lokið ekki eyrum við
ítrir rekkar, heyrið þið:
38.
Augum girndar auðs hver Rindi lítur,
hann með bjartri hringalín
hór í hjarta drýgir sín.
39.
Þig ef augað álma draugur, hneykslar,
kræktu fingri einum í,
út það sting og fleygðu því.
40.
Hönd af sker ef hún þig fer að hneyksla,
þessu gera áttu í,
ekki vera að fresta því.
41.
Lim því sveini sælla er einum tapa,
en að búkur brenni hans
brátt hjá púkum Andskotans.
42.
Þig ef slær einn þú svo nærri liggur
höggið kynstra á hægri kinn
hina vinstri bjóð um sinn.
43.
Ef nokkur vænum vill þig ræna kyrtli,
þessum gikki, góði minn,
gefðu skikkjuræfil þinn.
44.
Ef þig neyðir einhver leiður dóni
með sér fara mílu nær,
með honum bara *gakktu tvær.
45.
Unn þeim mest sem við þig verstir eru,
blessa þann sem bölvar þér,
böl þér vann og formæler.
46.
Hver ei hatar hrafna matar bjóður
systur, bróður son og víf,
sína móður, föður, líf,
47.
sá minn lærisveinn ei fær að heita.
Þess ei dylja þegna má,
þennan vil ég ekki sjá.
48.
Þú ei sorga þarft um morgundaginn,
hverjum degi hrelling sín
held ég megi nægja ófrýn.“
49.
Þannig kenndi þessi bendir stála.
Askur geira innti ríkt
ótal fleira þessu líkt.
50.
Vigra Þóra valdi fjóra og átta,
þá postula þjóð nefnir;
þessir skulu upptaldir:
51.
Einn hét Pétur ýtum betri flestum,
elda gjögurs *viti var
vaskur mjög til framsóknar.
52.
Kærstur Jesú Jóhannes var talinn;
kallar svein er Kristur ann
kostahreinust Ritning þann.
53.
Kaus og Jesús Jóhannesar bróður,
helst óslakan hjörs í þrá,
heita Jakop náði sá.
54.
Er að góðu getið bróður Péturs.
Þessi Andrés er nefndur
ýtir branda hamrammur.
55.
Þessir fjórir fiski vóru karlar
áður kristur, innt er frá,
á sinn lista skráði þá.
56.
Enn um getur einn sem hét Matteus.
Virðing gleymt sé vart þess manns,
var tollheimta starfi hans.
57.
Þjarkur skjóma þar var Tómas nefndur,
Hárs að baki harðskeyttur,
heldur slakur trúmaður.
58.
Bartólómeus best er sé og talinn,
Jakob sonur Alfeus
og með honum Filippus
59.
Einn má nefna nógu efnilegan
sendan út í kennslu krus
kallaðan Júdas Taddeus.
60.
Þá var Símon sverða glímu tamur,
viskusnari vigra Bur,
vandlætari kallaður.
61.
Einn hét Júdas, argur pútu sonur,
eins og prestur ágjarn var
eða verstu Gyðingar.
62.
Þessir kallar Kristi allir lutu,
hvar sem fóru fold yfir
fylgi vóru þeir spakir.
63.
Vopna kólfur vann þá tólf útsenda,
saman gengu tveir og tveir;
traustir drengir vóru þeir.
64.
Skyldu beimar betra heim gjörvallan,
lýður voðalegur þá
ljót skurðgoðin trúði á.
65.
Geira Baldur gaf þeim valdið yfir
– eins og Lúkas innir frá –
öllum púkum Vítis þá.
66.
Þessu trúi ég þá sé búin ríman.
Er nú þrotinn andi minn,
Austra brotinn kuggurinn.


Athugagreinar

2.1 brátt] út Iðunn.
9.1 kómu] komu Iðunn.
9.2 álma-Frey(r)] oddafreyr Iðunn.
9.3 vóru] voru Iðunn.
13.1 innti] sagði Iðunn.
13.2 Em eg] Er ég Iðunn.
13.3 að eigi] eigi Iðunn.
15.3 em] er Iðunn.
21.1 þjáða] þjóða Iðunn.
16.1 ramur]vanur Iðunn.
19.2 hefir] hefur Iðunn.
32.2 hver sem] sá er Iðunn.
37.3 ítri] > ítrir.
42.3 hina] honum Iðunn.
44.3 gakktu] farðu Iðunn.
51.2 viður] viti Iðunn.
56.3 starfi] starfið Iðunn.
57.
erindi vantar hjá Iðunni.
59.3 kallaðan] kallaður Iðunn.