Poppsonnettur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Poppsonnettur

Fyrsta ljóðlína:Nú breiðist kyrrð um rökkurgráa grund
bls.13. árg. bls. 169–171
Viðm.ártal:≈ 2025
Tímasetning:2015

Skýringar

Poppsonnettur.tumblr.com er vefsíða þar sem höfundur birtir sonnettur byggðar á íslenskum dægurlagatextum. Hugmyndin á bak við þá tilraun er ættuð af Bretlandseyjum, þar sem svipuð vefsíða hefur verið starfrækt um nokkurt skeið. Á þeirri síðu svífur andi sjálfs Shakespeares yfir vötnum í umritunum á dægurlagatextum listamanna á borð við Justin Bieber, Lady Gaga og Adele. Mest er skemmtunin raunar þegar málsnið hins upprunalega texta er eins fjarri upphöfnu og formföstu sniði sonnett­unnar og   MEIRA ↲
I.
Nú breiðist kyrrð um rökkurgráa grund,
þú gægist fram á ný er sofnar drótt
og hóglát leggur þína mjúku mund
í mína greip sem lykst um hana hljótt

þú sefar dýpstu hryggð og líknar lund
er lófa strýkur mjer um vangann rótt
en dokar aðeins unaðsskamman blund.
Ó, yrðu dagar lífs míns samfelld nótt!

Því kvöl er mjer hver váleg vökustund,
og verðlaust hjóm er sólbjört dagsins gnótt!
Því sjerhver morgunn opnar nýja und
og yndi draumsins hrífur burtu skjótt. —

Sem tálsýn hverfur fögur mynd þín mjer:
Þú, mildust Nína, ert ei lengur hjer.

II.

Er finn jeg hvernig laugast sjerhver synd
úr sálu mjer, hver angurtregi og hryggð,
í Kúburommsins köldu svalalind —
jeg kveð mitt strit en sukki heiti tryggð.

Í fjöldann stekk jeg fimlega sem hind
þótt fjör mitt mæti kenndra guma styggð;
þeir virðast líflaus hræ hjá minni mynd
og mansöng þeim er svönnum vekur frygð.

Við sjerhvert fljóð jeg teitur trúss mitt bind
á trylltri för um Reykjavíkurbyggð
og ólmur klíf hvern ástarsælutind,
það er í senn minn löstur og mín dyggð:

Jeg hneigist mjög til víns en vinnu ei
og völsa mínum ota að hverri mey!