Til vorsins | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Til vorsins

Fyrsta ljóðlína:Ó, velkomin sértu nú sunnan um haf
Bragarháttur:Sex línur (o þríliður) ferkvætt:aBaBaB
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1900
1.
Ó, velkomin sértu nú sunnan um haf
þú sólborna, léttfleyga himinsins dóttir!
Oss kærasta árstíð, sem alvaldur gaf,
þig elska og tilbiðja ljóskærar dróttir.
Og frömuði lista, þar flugþróttur svaf,
þú fyrirmynd beint upp í guðsríki sóttir.
2.
Hér bíða þín dalir, sem dreymdi um frí,
sem dauðvona þráðu þig veturinn langa.
Þeir sjá, hvar þú roðar í suðrinu ský,
og sólbrosið leika um gnípu og dranga.
Þeir vita, þú kemur þar hressandi hlý,
þá hrynja þeim feginstár niður um vanga.
3.
Svo flýt þér til starfa, mér finnst hér svo kalt,
og flosheklu græna þú breið yfir moldu.
Ó, bæt nú í skyndi það böl okkar allt,
sem börn þín um skammdegi vetrarins þoldu;
og blessandi, verndandi hendi svo halt
með himinsins krafti’ yfir sævi og foldu.
4.
Ég trúi því ekki, þú eigir neinn vin,
sem elskar þig heitar, sem þráir þig meira.
Um svartnætti vetrarins sé ég þitt skin,
og sofanda blær þinn mér hvíslar við eyra.
Hann kveður sem andvari’ í allaufgum hlyn
um ótalmargt það, sem ei nokkur má heyra
5.
Í auðmýkt ég huga minn hneigi þér vor,
sem hlær móti sjónum frá skýjanna röndum;
á himni og jörðu ég horfi’ á þín spor,
með heiðgullnum rósum og blágrasa-vöndum.
– Ég veit, ef við sýnum nú þrek vort og þor,
að þá rennur vor, sem oss leysir úr böndum.