Skrúðsbóndinn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Skrúðsbóndinn

Fyrsta ljóðlína:Mjög er reisugt í Skrúð
bls.58–61
Viðm.ártal:≈ 1850
1.
Mjög er reisugt í Skrúð,
þar sig bergrisans búð
inn í brimþveginn hamarinn klýfur!
hvolfið berginu mænt
þakið guldeplað grænt
sést í grisjaðri bjargfugla-drífu.

2.
Þar er hafsúla og már,
þar er haftyrðill smár,
þar eru hrafnar, lundar og skarfar.
Þar er æður og örn
þar sín ótalmörg börn
elur svartfugl og skegglurnar þarfar.

3.
Meir en steinsnarið hátt
móti hafsuðurs átt
finnst þar húmtjaldað eldjötna smíði,
hartnær teigshæðir tvær
inn í náttmyrkrið nær,
það ei numið fær sólgeislinn fríði.

4.
Sú stóð hátimbruð höll
síðan fyrst risu fjöll
þar er fámennt og draugalegt inni.
Gamall bóndi þar býr,
sá er um bakið ei rýr,
meður brúðinni margtrylltu sinni.

5.
Hann er hrímþursi að ætt,
hann fær hráætið snætt,
hann er hundvís og fullur af galdri,
sér frá Hólmum á fjöl
(þá rauk fjörður sem mjöl)
hann sitt fljóð seyddi í norðanátt kaldri.

6.
Ei það verndaði fljóð
þó að væri hún jóð
þess hins vígða sem hökli sig klæddi,
er um há-páskadag
undan heilögum brag
hún úr hlaðinu vitstolin æddi.

7.
Ekki dugði henni það
að hún daglega kvað
inar dýrlegu Maríu-rímur.
Þetta fékk hana ei fest
er á seiðhjallinn sest
sá inn sviplegi hamranna grímur.

8.
Henni ferðin gekk vel,
henni freyddi um stél,
henni flugþeytti bláaldan þunga,
hellis beint inn í vík,
þó að býsn væru rík,
fjölin bugar með prests-dóttur unga.

9.
Undir berginu blá
stendur biðillinn þá,
hann er blásvartur, sköllóttur, loðinn.
Hann þar skaut henni inn
undir skinnbjálfann sinn
allan skorpinn og rotinn og snoðinn.

10.
„Þú skalt ganga með mér!“
sá inn trtröllslegi tér,
og með töfraða brúðina gengur
inn í afhelli þann,
sem nú enginn sér mann
eða um getur forvitnast lengur.

11.
Því hans herbergishurð
er nú heljarstór urð
og hans hvílurúm járngrindur loka.
Ef þig fýsir að sjá,
þú þér fyrst verður frá
þeirri ferlegu grjóthrúgu að moka.

12.
Oft fékk spilverkið skamm:
vittu hann sprengdi hana fram
oná spjátrunga átján sem þráðu.
Þar við rúmið hans inn
hafa svefnstaðinn sinn
og þeir sofa þar ennþá í náðum.

13.
En þar örgrannt frá gátt
stendur bergvatnið blátt,
það ið besta, sem nokkur vann smakka.
Oss að brunninum þeim
býður bóndinn hér heim
og hann biður oss taka til þakka.

14.
Drekkum Skrúðbóndans skál,
vel hann skilur vort mál
og kvað skemmtun af kveðskapnum hafa:
„Kveðið Andra jarls óð,
sú er unun mér góð“,
svo hann eitt sinn við gesti nam skrafa.

15.
Drekkum konunnar skál
svo hin klerkborna sál
hinum klerkbornu stefjunum fagni.
Lifi bóndi og fljóð,
þrífist byggð þeirra góð,
svo hún búmönnum duglega gagni.