Kötludraumur (I) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kötludraumur (I)

Fyrsta ljóðlína:Már hefir búið / manna göfugastur
bls.4–15
Bragarháttur:Fornyrðislag
Viðm.ártal:≈ 1600–1725
Flokkur:Sagnakvæði
Fyrirvari:Eftir að lesa yfir og bera saman við handrit.
1.
Már hefir búið
manna göfugastur
nýtur höfðingi
á nesi Reykja.
Hans frá eg kona
Katla héti
sú var menjaskorð
manna stórra.
2.
Þau frá eg unntust
allt hið bezta
hugði hjóna
hvort öðru vel
þótti hún Katla
kvenna allra
vífið vitra
vera skrautlegust.
3.
Már bjóst heiman
með mæta drengi
ör við ýta
alþingis til
en vandlega
vildi honum
skorða gullvafin
skikkju sauma.
4.
Út gekk úr skála
árla myrgins
vel björt kona
til veðurs að líta
hné hóglega
hurð í gættir
svo þar enginn
inn komast mátti.
5.
Gekk til dyngju
drós gullvafin
þá var silkisif
svefn í brjósti
hné til beðjar
brúður skjótlega
ei frá eg hin ljósa
laust sofnaði.
6.
Kómu kátar
konur í skála
og kváðu hina fögru
fast heldur sofa
þá tók að draga
að degi miðjum
er þær veigaskorð
vekja fýsti.
7.
Gátu eigi vakið
gullfagurt fljóð
var þá hrygð í hug
hverjum manni
sögðu snótir
svinnkunnugum
fróðgeðjuðum til
fóstra hennar.
8.
Hann lét verða
á vegu marga
runsvinnlegra
ráða í leitað
en við enga
ýta breytni
víf vænborið
vakna mátti.
9.
Vakti yfir fljóði
full dægur fjögur
frómlundaður
fóstri hennar
þá brá hún Katla
kynngi svefni
þó var við firða
fálát kona.
10.
Már kom af þingi
en þegir viður
kátlynd kona
sú er Katla heitir
spurðu seggir
hvað sökum ylli
því hún baugabil
brygði glaumi.
11.
Sögðu snótir
að sofið hefði
full dægur fjögur
falda Nanna
enginn gat vakið
víf um stundir
og því væri þorngrund
þanninn brugðið.
12.
Már í hljóði
hana að spurði
hvað í svefnförum
snótar væri
það mætti verða
að þér yrði ekki
mein að mælgi
mér þótt segir.
13.
Már segi eg þér
mína drauma
þó eg alla menn
aðra leyni
því eg vænti helzt
vissulega
að mér hagnist vel
hugbót að því.
14.
Það var allt í senn
að svefn sótti mig
er þú heiman fórst
heldur fastlega
eg réð að sofna
á svanadúni
mjög festist mér hann
fast í brjósti.
15.
Kona þótti mér
koma í skálann
heldur húsfreyjuleg
að hitta mig
hennar þótti mér
hvert orð vera
svo sem gras greri
og gaman á að heyra.
16.
Hún kvaðst eiga
yfir að Þverá
heldur skammt héðan
húsakynni
þess réð biðja
baugfoldin mig
að eg gullhrings Gná
á götu leiddi.
17.
Við frá garði
gengum þínum
þar sem fyrir var
foldar dreyri
virtist mér
að vera mundi
skoplaust við mig
í skapi sínu.
18.
Hún þakkaði mér
mína göngu
en eg bað hana
heim vel fara
hugði eg skiljast
við skrautvaxna
er hún þar um stéttir
stillti fimlega.
19.
Hún bað mig þá
í hönd sér taka
verður þú að sjá
vórar bygðir
svipti mér svo
yfir svana dýnu
brátt á bakkann
bar þanninn til.
20.
Hún kallaði mig
Kötlu sína
verður öll að tjá
vór tíðindi
þegar skal eg búin
þér að fylgja
hlaðgefn ef þú vilt
heim aptur í skála.
21.
Þar sá eg hennar
húsakynni
hefi eg ei bjartari
bólstað litið
eigi var mér þá
ugglaust um það
hvað í minni för
mundi hreppa.
22.
Inn gengum við
þar sem ekki var
fjölmennt fyrir
í fljóða sal
settust prúðar
á pall konur
þar sem virðuleg
vóru sæti.
23.
Gengu þá ljósar
í laug konur
var fljóða flokkur
fullvel þveginn
eg réð sofna
á svanadúni
áður var þar vífum
víndrykkur borinn.
24.
Vaknaði eg við það
að víf í sal
glóðrauðu sig
gullinu skrýddu
en mér að höndum
húsfreyjan bar
gullsaumuð föt
gjörð með kvenprýði.
25.
Kastaði hún yfir mig
kápu sinni
sú var skikkjan
skorin fimlega
með gráskinnum undir
en guðvefjum yfir
og búin í skaut
brenndu gulli.
26.
Mér bauð hún Alfvör
að eiga skyldi
hnossir sínar
ef eg hafa vildi
hringinn rauða
höfuðgull og men
fingurgull fjögur
og fagran linda.
27.
Oss bað ganga
með glöðu hjarta
allsiðlega
inn í skála
ein kvaðst hún vilja
öllu ráða
var hún þar í flokki
fullskrautlegust.
28.
Vér inn þaðan
átta gengum
fylgdumst inn
með fljóði í skála
enn kvaðst hún vilja
öllu ráða
því hún væri í flokki
fullprúðlegust.
29.
Dreif í skála
skjöldunga lið
þar var glæsilega
gólfhjörtur skipaður
allur þótti mér
innan hallar
gullmerktur uppi
gjörður með tjöldum.
30.
Vóru sveitum
silfurker borin
mjög tóku að hallast
horn gullsnúin
stóðu fyrir mönnum
í miðjum sal
skálir vænar
af skýra gulli.
31.
En í öndvegi
æðra hvíldi
seimnjótur búinn
silkiklæðum
á honum tók
allbjört kona
bað hún kátan
Kár að vakna.
32.
Hvað er þér móðir
að mínum þú hefir
siðlát kona
svefni brugðið?
Hvórt er nokkuð
nýtt í fréttum
eða er hún Katla
komin í skála?
33.
Allvel væri
ef að oss mætti
öllum það
til yndis verða
þó er mér aldrei
ugglaust um það
hvórt samlyndir við mig
sáttum eptir.
34.
Við vórum bæði
til bekkjar leidd
siklings arfi
af sveinum ríkum
beiddi Alvör
bragna sína
brúðguma kalla
og breyta svó nafni.
35.
Sögðu snótir
að svefnmál væri
var mér skjótlega
skipað til rekkju
innti hún Alfvör
allkátlega
nú skaltu Katla
Kárs brúður vera.
36.
En eg sárlega
svaraði henni
varð mér hryggt í hug
af hennar orðum
miklu ann eg
Mávi heitara
en eg með yður
ástir taki.
37.
Satt er það að segja
að síðan kom
marglátur til mín
maður í hvílu
mig bað hann eina
öllu ráða
gullinu þeirra
og gersemum.
38.
Satt er það að segja
að síðan kom
marglátur til mín
maður í hvílu
mig bað hann eina
öllu ráða
gullinu þeirra
og gersemum.
39.
En eg lét á því
engar vónir
að eg auðbrjóti
ástir gæfi
sá hann það gjörla
að eg gleði týndi
komu þá býsna stór
brigði á mín augu.
40.
Svo var eg orðin
ekkaþrungin
miklu meir en það
eg megi frá segja
því eg þóttist firna
fáráð vera
svo sem í flokki
færi eg varga.
41.
Þar var eg hjá þeim
þó mig lítt bæri
tvær nætur í bæ
með trega mestum
enginn mátti þó
ýta kinda
glaumi mig firra
heldur glöddu allir.
42.
Réð af móði
mjög bráðlega
kinnrjóður við mig
Kár að mæla.
Heldur skal eg
helstríð bera
en á ljósri þér
lífskvöl sjái.
43.
Huggast skaltu
hafsglóðar bil
þér skal bráðlega
á burtu fylgja.
Allt bið eg gangi
gullhlaðs Nanna
þrálynd við mig
þér að óskum.
44.
Við munum eiga
allfræklegan
svinn seimabil
svein í vónum
Ara láttu heita
okkarn niðja
þess bið eg þig
er þar mun koma.
45.
Fá þú með nafni
nýtum sveini
horsklynd kona
kníf og belti
allt bið eg endist
við auðskata
fráneygan mann
er faðir hans vildi.
46.
Legg þú í fagra
finnskjóðu niður
glys þitt og föt
gulli búin
njóttu gersema
með gleði allri
þér ann eg baugabil
bezt alls njóta.
47.
Allar skaltu hnossir
er heim kemur
marghyggið víf
Mávi sýna
og honum segja
satt fr´aöllu
þó þér vaxi það
víf í augum.
48.
Flytjið þið ykkar
yfir að Þverá
bústað þann
er byggja ætlið
látið við enda
á ykkar skála
fuglþúfur tvær
fríðar standa.
49.
Þá mun allskyns
auðnan vaxa
ferlegur auður
og fríðar hnossir
þar mun aukast
æ og þróast
giptan ykkar
ef þið gjörið svó.
50.
Hér mun eg skiljast
skýrleg við þig
munum við síðan
sjást aldregi
þig mun eg lengi
laukaná muna
minnar ævi
mætti eg ráða.
51.
Þar voru allir
í þungum harmi
þá eg til innis
aptur skyldi
lagðist í sæng
sjálegur maður
dapur í hyggjustað
og dreyrði af augum.
52.
Mig gjörði Alfvör
út að leiða
eigi þurfti hvítri
harms að frýja.
Heyrði eg bráðlega
brest í skála
er hann Kár kenndi
kaldan dauða.
53.
Heim fylgdi mér
hárbjört kona
eigi þurfti Alfvöru
angurs að frýja
mælti hin skýra
að skilnaði
þorngrund við mig
þessum orðum.
54.
Heil lifðu Katla
þó eg hafi ekki
utan sorg sonar míns
fyrir sakir þínar
eigi skal gersemum
góðum þig ræna
þínum hinum beztu
því það er Kárs vilji.
55.
Við skulum vefjast
vinalags snörum
tæri eg þér til þess
tvennum klæðum
mun þig ölveig þá
ekki saka
veldur ei gullhlaðsskorð
utan góðu einu.
56.
Már réð að mæla
við menjabil
sýndu mér allar
seimgefn hnossir
hirðum gripi
og höfum síðan
búning þann
þá við skulum hófa.
57.
En svinnhuguð
fyrir sumar litlu
allfríðan son
átti hún Katla
sögðu konur
að koma mundi
barn aldregi
bjartara sýnum.
58.
Már í hljóði
mælti við hana
hygðu sjálf
að sveini vandlega
unn þú vel, þorngrund,
þessum syni
sá mun gullbrjótur
giptu stýra.
59.
Svo skal hann nefna
nafnvænlegasta
fagra Ara
sem faðir hans mælti
höfðinglegur
er hann í augum
marghygginn mjög
mér skalt hann kenna.
60.
Fá þú með nafni
fríðum sveini
heillynd kona
hníf og belti
allt skulum efna
við okkarn son
sem framfarinn
faðir hans mælti.
61.
Upp réð að vaxa
virðulegur
Ari og hafði
almannalof
brátt réð honum
í hönd selja
hrings glóðar Bil
hníf og belti.
62.
Átti Þorgeir
upp að fræða
allfrækilegur
Ara vörður
Ari var nefndur
af því kyni
ör, mildur og var
ættar bætir.
63.
Enginn fannst sá
er til Alþingis kom
svo stórgeðjaður
honum stæði á sporði
bjuggu bragnar
bólstað mikinn
þar sem kæn fyrir
Katla sagði.
64.
Vurðu smiðir
vónum bráðari
þeim snerist fljótt í hag
um það og annað.
Mig bað Helga
að hrósa skyldi
kátlynd í brag
Kötludraumi.
65.
Minnstu hvervetna
hvað eg segi
og erindum
engum gleymir
svo að upp fyllist
öll þeirra tala
og sextugt verði
samið kvæði.