Til Afrodítu | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Til Afrodítu

Fyrsta ljóðlína:Heyr, Afrodíta, hvers eg vildi biðja
Höfundur:Saffó (Sappho)
Þýðandi:Grímur Thomsen
bls.284–285
Viðm.ártal:≈ 1875
Flokkur:Ástarljóð
1.
Heyr, Afrodíta, hvers eg vildi biðja,
háleita, fagra, ráðasnjalla gyðja!
Hugraunir sárar láttu mig ei líða
lengur og kvíða.
2.
Bað eg þig fyrri, brástu þá við óðar,
brunaði kerran þín um mána slóðar,
hágöngur létt af hvítum spörvum dregin
heiðbjarta veginn.
3.
Lögur og himinn hvert skein öðru glaðar,
hjá mér von bráðar gullin reið nam staðar,
brostirðu til mín, blessuð, og mig fréttir
blíðlega eftir,
4.
hvað að mér gengi, hví eg hefði kvartað:
„hvað er sem þjáir, Sapho, litla hjartað?
Hver er sem elsku þína vill ei þýðast?
Það skal ei líðast.
5.
Flýi hann þig núna, fljótt skal hann þín leita,
fyr hvað ei þáði hann, skal hann sjálfur veita,
elski hann þig eigi, afhug skal eg breyta í
ástina heita.“
6.
Komdu þá aftur, ástar blíða gyðja!
Eyddu svo raunum, virðstu mig að styðja,
til þess eg mínum framgengt vilja fái,
fögnuði nái.