Lítið ávarp til þess, sem tjáist að fjörráð vilji brugga íslenskunni | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Lítið ávarp til þess, sem tjáist að fjörráð vilji brugga íslenskunni

Fyrsta ljóðlína:Er það satt þig velgi við
Höfundur:Gunnar Pálsson
Heimild:Andvari.
bls.38. árgangur 1913, bls. 80–84
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1775
Fyrirvari:Bera þarf saman við handrit eða frumprent

Skýringar

Fyrirsögnin í Andavara er: Úr kvæði síra Gunnars Pálssonar, er hann nefnir „Lítið ávarp til þess, sem tjáist að fjörráð vilji brugga íslenskunni“.
Kvæðið er samkvæmt því fleiri erindi en hér eru talin.
1.
Er það satt þig velgi við,
vinur, íslenskunni,
og haldir lítinn herrasið
hana að bera í munni?
2.
Hún er dauflegt dóna mál,
sem drussar brúkað hafa,
og ei fyrir þína eðla sál
ónett svo að skrafa.
3.
Þykir líka gamalt grey,
sem getur liðið enginn,
því er hún út á þessa ey
frá þjóðum öðrum gengin.
4.
Óðinn talaði tungu þá
— trúarvillu skratti —
og ótal fleiri út í frá
undir norðurhatti.
5.
Enginn hennar upptök veit,
en allt er nýtt í kringum,
því er hún einninn öngvu neyt,
allra síst á þingum.
6.
Kaupmenn hæla henni vart,
hálærðir í flestu,
þykir hún hafa öngva art
með örðugleikum mestu.
7.
Þeir, sem hafa ið þunna loft
þefað út í löndum,
mun hún þykja örðug oft
í æðri og lægri stöndum.
8.
Þó er verst, að höndlun hér
hún aflagar fríða,
og „intressið“, sem vitum vér,
verður skaða líða.
9.
Danska, franska, þýska þér
þykir haganlegri,
og norrænunni, er nöldrum vér,
níu sinnum fegri.
10.
Sprokmeistarinn spektarstór
sparar ei að kenna,
vill og láta klerka í kór
kyrja upp sönginn þenna.
11.
Prédika skal prestur eins
praktuglega í dönsku,
þar er til ama ekki neins
í að blanda frönsku.
12.
Húslestur á hverjum bæ
haldinn skal í dönsku,
máske sumir, — hæ, hæ, hæ!
hafi þá í spönsku.
13.
Íslands bækur allar þá
upprífist í tappa,
ef að menn á fiöskur fá
og flytjist nokkur vappa.1
14.
Prentverkið með prakt og kurt
prófit mikinn hefur,
önnur kver þá eru í burt,
af sér dönsk það gefur.
15.
En bíddu lítið, bróðir kær,
— blaðinu vil eg snúa, —
og af mér nokkuð annað lær,
sem í þig vil eg núa.
16.
Íslenskan er eitt það mál,
sem allir lærðir hæla,
og aldrei mun þín auma sál
annað fegra mæla.
17.
Aldur hennar er ágætt hrós,
sem eðla gripa fleiri,
telst hún margra tungna ljós,
er talað er um, eg heyri.
18.
Sína tungu talar hver,
tekst þó saman að eiga,
hver við annan hagar sér
sem hentuglegast mega.
19.
En hefir nokkur heimsins þjóð
hafnað tungu sinni,
höndlunin svo hæg og góð
heldur verða kynni?
20.
Nóg er það, sem nauðsyn krefr;
og neinn ei hjá kann sneiða,
en óstaðfestin optast hefr
orkað tungu að deyða.
21.
Ærlegr vani er æra lands,
ærlegir við hann halda,
en óstaðfestin ærukrans
ei kann með sér falda.
22.
Marglát kvinna þykir það,
sem þýðist komugesti,
en guma húss snýr gumpi að,
sem gaf henni trygðafesti.
23.
Hefir verið höndlun körg
hér á landi tíðum
og klögun yfir komin mörg
af kúguðum bændalýðum.
24.
En trúi’ eg aldrei tungna grein
til þess orsök væri;
hún’ef verið hefði ein,
hálfu betur færi.
25.
Constantia er kóngsins orð,
clenodium besta,
en feðratungu fárlegt morð
fíflsleg brjálsemd versta.
26.
Herostratus hefr ei prís,
er húsið brendi fríða;
sama mun þér sæmdin vís,
ef svo vilt mál vort níða.
27.
Kanske hafir meint hér með
mikið hrós á-vinna,
og danskra herra gúnstugt geð
gott að eiga að finna.
28.
En dæma sjálfir danskir þann
discurs okkar milli,
hvort þitt project prýða kann
patriotisk snilli.
29.
Held eg víst, að herrar þeir
hér við framar styggðist,
og Íslendinga miklu meir
meta, svo þú blygðist.
30.
Hafa jafnan höfðingsbrjóst
hatað landráð þegna,
og drottinsvikin löngum ljóst
látið mönnum hegna.
31.
Líkur fugli þú ert því
þeim, sem mönnum leiður
dygðalakur drjúgum í
drítur sjálfs síns hreiður.
32.
Hitt er skaði, meiri en má
maður nokkur hyggja,
íslenskuna af að má
og út úr heimi byggja.
33.
Filologiskt flest hvað er
í flestum Norðurlöndum,
fylling rétta fá kann hér,
þó fátæklega stöndum.
34.
En trúðu mér, þá tungan deyr,
til þó enginn kenni,
leyndardómar þeygi þeir
þaðan af fást úr henni.
35.
Hvort mun betra að heiðin þjóð
hjá oss dönsku læri,
eða kristnin íslensk góð
iðkuð sé sem bæri!


Athugagreinar

1. Vappa: danskt brennivín.