Ryskingabragur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ryskingabragur

Fyrsta ljóðlína:Heldur var á Heggstöðum
Bragarháttur:Samhent – hringhent (hagkveðlingaháttur)
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Heldur var á Heggstöðum
hryðjusamt á jólunum,
komst í hart hjá konunum,
kólnaði líka í bændunum.
2.
Stofnaði Matta stórræðin,
að Stjönu vatt með skörunginn,
mælt er satt að svipurinn
sýndist skratti íbygginn.
3.
Hvessti reiði úr húsfrúnum,
hentu skeið á pallinum,
rumdi um leið í rassinum,
ragnið sauð í munninum.
4.
Hlunkaði glatt í höllinni,
hraut þá Matta að skilnaði,
kylliflatt með fáryrði,
ferleg datt í glímunni.
5.
Flagðið vill á fætur stjá,
froða sauð úr tannagjá,
Stjana hana ofan á
endilanga fellur þá.
6.
Stjana brött um boruna
býsna hvött til stórráða
lék við Möttu lafhrædda
líkt og köttur músina.
7.
Sá hann Jón á sigurinn,
svo var glaður maðurinn,
hann fór að kyrja hersönginn
þó hrygla mæddi og brjóstþyngslin.
8.
Sýndist Kela söngurinn
síður en ekki viðfelldinn,
frúin hans með feita kinn
fallin lá og uppgefinn.
9.
Öskraði Keli eins og naut,
ekki vel hann stóðst þá þraut,
blár sem hel að hjörva naut
um hildar mel sér ruddi braut.
10.
Var þá Keli víglegur,
vóð að Jóni dimmleitur,
hrópaði síðan hugstríður:
Hættu að syngja bölvaður.
11.
Saman æða seggir þar,
sárheit bræði hjörtun skar,
gnötraði svæði og glugga mar
glíman hræðileg því var.
12.
Hamaðist Jón og hóstaði,
hrækti og andann sogaði,
engu Keli ansaði
en ógurlega fretaði.
13.
Grautarskálar gnötruðu,
gutlaði í þeim í sífellu,
lummudiskar dönsuðu,
dulur og klæði blöktuðu.
14.
Sem heigulstrá á húsþekjum
hnígur dautt á endanum
bændur líkt með loftköfum
láku niður á pallinum.
15.
Húmaði njóla himininn,
huldist sól og dagurinn,
aum þá fólin uppgefin
enduðu jólaleikinn sinn.
16.
Ferleg jóla-frásaga,
farðu að róla um byggðina;
segðu snjallan sannleika.
Sýndu alla skömmina.