Önd mín af öllum mætti (morgunsálmur) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður+) þríkvætt AbAbCdCd
Viðm.ártal:
Flokkur:Sálmar
13.
Enn morgunsálmur
Tón: Krists er koma fyrir höndum

1.
Önd mín af öllum mætti,
ó, drottinn, þakkar þér
að þú mín allvel gættir
í nótt og hlífðir mér.
Líkn þinni vil eg lýsa
og lofa kærleik þinn,
einninn þá elsku prísa
að þú varst skjöldur minn.

2.
Allsháttuð sæmd og æra,
*ó, Jesú, þér sé veitt
að mig auman áhræra
illt léstu ekki neitt.
Mín skal því tungan mæla
um miskunn þína þrátt
og henni jafnan hæla
af hjarta dag sem nátt.

3.
Herra, heilagi andi,
heiður þér jafnan sé
að undan öllu grandi
í nótt mig dróst í hlé.
Vek mig í vild og mætti
vegsemd að segja þér
en hafna heimsins hætti
til heilla sjálfum mér.

4.
Blessuð þrenningin blíða
blessi minn sálarhag,
afvendi eymd og kvíða
almáttug þennan dag
og allar ævistundir;
en þá heimsmæðan þver
unn mér á allar lundir
eilíft lof syngja þér.

(Hallgrímur Pétursson: Ljóðasafn 4, bls. 161–165. Í útgáfunni er morgunsálmurinn tekinn eftir JS 272 4to I, bl. 162r–v og er sálmurinn hér birtur orðréttur eftir þeirri útgáfu)