Fyrsta tíðavísa yfir árið 1779 – 1. til 28. erindi | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Tíðavísur Jóns Hjaltalíns yfir árin 1779 til 1834 1

Fyrsta tíðavísa yfir árið 1779 – 1. til 28. erindi

TÍÐAVÍSUR JÓNS HJALTALÍNS YFIR ÁRIN 1779 TIL 1834
Fyrsta ljóðlína:Vakni fríir virðar hér
bls.1–3
Bragarháttur:Stikluvik – þríhent
Viðm.ártal:≈ 1775
Tímasetning:1779
Flokkur:Tíðavísur
1.
Vakni fríir virðar hér,
vakni frúr og sveinar.
Angurs lýjum eyða ber,
árið nýja komið er.
2.
Seytján ræðast hundruð há,
hérmeð áttatíu,
hjóli stæðu aldar á,
árin fæðing Kristí frá.
3.
Vetur góður, vor þó svalt
vann á horkindunum.
Norðan-gjóður kramdi kalt,
Kári móður blés ávallt.
4.
Garpar fengu grasa fátt,
greri jörðin lítið.
Því varð engi þroskasmátt,
þurrkar gengu fram á slátt.
5.
Skipti þá um skýjaból,
skemmdust töður víða,
skaðann háa skúrin ól,
skjaldan sá í heiði sól.
6.
Sýndi snjóa september,
sunnan-regn þar eftir.
Skyggði flóa skýjaher,
skipti þó með nóvember.
7.
Norðan-kuldi, frost og fjúk
fram að jólum gengu.
Ísinn huldi Ýmisbúk,
einninn duldi fjallahnúk.
8.
Aflafeng úr salnum sands
syðra margir drógu.
Fagna lengi brjótar brands
bjargargengi vestanlands.
9.
Hér að austan fiskifátt
fregna þegnar mega.
Uppí nausti heldur hátt
hvíla flaustur dag og nátt.
10.
Sótt og kvillar særðu menn,
sumir burtu dóu.
Bragna hyllast báginden,
býsnum fyllast kjörin senn.
11.
Hólasætis hreinlyndur
herra Gísli deyði,
biskup gætinn, góðsamur,
guðvís, mætur, hálærður.
12.
Grætur sólarhvarfið hallt,
hvörein kirkjustjarna.
Grætur skólinn gaman kalt,
grætur Hólastiptið allt.
13.
Syrgja flestir börinn brands,
Bjarna Pálsson látinn,
lærdóms mesta lagðan krans,
læknir besta Ísalands.
14.
Hringa-jörðin hans og börn
herrann dáinn gráta,
sé þeim vörður, sól og vörn
sá sem gjörði land og tjörn.
15.
Dauðans reidda skálm uppskar
skjóltré Steingrímsfjarðar,
prófast deyddi prúðan þar,
prýði eyddi glaðværðar.
16.
Ásgeir síra þessi þó,
þar sem stað nam halda,
hafinn er í himna ró,
hulinn hér í jarðar mó.
17.
Vildargagnið Vatnsfjarðar,
virtur prófasts nafni,
sómahagnað sífellt bar,
síra Magnús deyði þar.
18.
Aðrir prestar taldir tveir
tráðu dauðans götu.
Yndið brestur aldrei meir.
Unun bestu fengu þeir.
19.
Holta glaður þingum því
þjónaði Böðvar prestur,
og sómahraður sorgafrí
síra Daði Mýrdal í.
20.
Blóðsting harðan beið og tjón
bragna senn af dauða,
hafs við garða hvellan tón
Hornafjarðarsveitin Lón.
21.
Fyrra vetur voða-fár
virðum þremur sendi
öldu hret, þeir urðu nár.
Ekkjur grétu ræntar þrjár.
22.
Nú um þenna vetur vann
vatn, er Laxá heitir,
að sér spenna mætan mann,
mitt í henni drekktist hann.
23.
Hið seinasta feigðar-far
flestum er í minni:
Sex í rastir sukku þar
siðprúðastir skipverjar.
24.
Huldir dúkum hafs um strind
héldu að seladrápi,;
fengu mjúkan fyrst þá vind,
fylltu búkum sigluhind.
25.
Hér næst skelja heim um rann
hugði kuggur vitja.
Ægir belja byrstur vann,
báran heljar fyllti hann.
26.
Feigðarólgu umvafðer
ýtar sex þar dóu,
sjávarkólgu sveipaðer,
sorgarbólgu þreyðir hér.
27.
Guðs ótrauða gæskan að
gæti sálum manna,
hvar sem dauða hitta vað
hels svo nauðum létti það.
28.
Meira þylja man nú síst
mæddur hugar-andi
grund því hylja gríma býst,
gríðar kylja þreytist víst.