Bænarsálmur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Bænarsálmur

Fyrsta ljóðlína:í þinni ógnar bræði
bls.D6v (bls. 96–98)
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður+) þríkvætt:AAbCCb
Viðm.ártal:≈ 1625

Skýringar

Bænarsálmur þessi er reyndar ekki frumsaminn af Oddi heldur þýðing hans á sjötta Davíðssálmi: „Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni.“ (Sjá Biblía 1956, bls. 508).
1.
Í þinni ógna bræði
ó, guð! hverja eg hræðist.
Ávíta ekki mig.
Og lát ei á mig detta
í reiði refsing rétta
sem er óbærilig.
2.
Mér þú miskunna, drottinn!
því minn kraft ofur-sóttin
allan burt úr mér dró.
Mig græð af meini bitra,
mín bein altekin titra
eigandi ekki ró.
3.
Mín sál af mæðu strangri,
mikilli sorg og angri
harðlega er haldin mjög.
En þú minn einka herra!
Á slíkt lengi að vera
svo fró ei finni eg?
4.
Þér drottinn því snú aftur,
þinn drottinn! mikli kraftur
sál mína frelsi fljótt.
Lausn og hjálp virðst mér vinna
vegna miskunnar þinnar
svo að mér sé vel rótt.
5.
Því að andaður enginn
eða sá er afgenginn
minnist þig mildan á:
Hvör kann í kaldri foldu,
kafinn í rauðri moldu
liggjandi lof þitt tjá.
6.
Þreyttur af þungum ekka
þrátt gjöri eg tárin drekka,
hvörja nótt hvílu þvæ,
og í gráti um nætur
undir mér fötin væti
því huggun hvergi fæ.
7.
Einninn er mitt andlitið
af sorg og harmi bitið,
bragð, fegurð öll burt er;
afgamall ílits sýnist,
olla því fjandmenn mínir
sem þrengja þungt að mér.
8.
En þér sem í synd blífið
og öngra glæpa svífist
frá mér farið á burt
því einn guð er hæst situr,
hann til hins lægsta lítur,
harm brjósts míns hefur spurt.
9.
Nær sem eg nauðum neyddur
náðugan drottinn beiddi,
algjörði í senn það,
erindið annast að heyra,
allt mér veitandi meira
en eg með auðmýkt bað.
10.
Allir sem illt mér vildu
ærna smán hreppa skyldu,
skammaðir skelfist þrátt.
Snúi þeir snöggt við baki,
sneipan þá fullskjótt taki
svo allir endist brátt.