Aldasöngur, Einn fagur sálmur um mismun þessarar aldar og hinnar fyrri | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Aldasöngur, Einn fagur sálmur um mismun þessarar aldar og hinnar fyrri

Fyrsta ljóðlína:Uppvek þú málið mitt
Heimild:Syrpa.
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) aaBBCC
Viðm.ártal:≈ 1625
Tímasetning:1616
Flokkur:Heimsádeilur

Skýringar

Espólín lætur Aldasöng Bjarna eiga við tímabil Odds biskups Einarssonar og erindið: „Lénsfénu ólust á óríkra börnin smá“ miða á jarðagræðgi biskups, og getur það þá tæplega verið kveðið fyrir 1600, en má vel vera að það sé ort um 1616, þar sem Espólín setur það, og Bjarni skáldi sé dáinn um áttrætt 1626, eins og dr. Jón, landsskjalavörður, getur til, eftir því sem segir í Amúratis rímum. Sjá: Digtningen paa Island, etc. bls. 398. En hvað sem um ákveðin áratöl er að segja, þá má telja líklegast að kvæðið sé ort á   MEIRA ↲
1.
Upp vek þú málið mitt,
minn guð, hljóðfæri þitt.
Láttu þess strengi standa
með stilling heilags anda,
að hafni eg hégóma æði,
en hugsi um eilíf gæði.
2.
Á þinn eingetinn son
er öll mín trú og von,
hann gleður mitt geð og sinni,
gefur líf öndu minni.
Hef eg ei annað hæli.
Heimur er sorgar bæli.
3.
Ljónið, það leikur sér
við lömbin drottins hér,
dúfunni fálkinn fargar,
þá flýgur hún sér til bjargar.
Hanarnir heims sig státa,
en hænuungarnir gráta.
4.
Hoffrúin hleypur ær,
þá herrann gígjuna slær,
hún er að dansa og dilla,
drekinn gamli að spilla.
Syfjaðar meyjar sitja,
senn mun brúðguminn vitja.
5.
Ó, Jesú Christi guðs son,
eg á þín hingað von,
kom þú sæll, kóngur blíður,
kvöldar, á daginn líður,
haf mig frá heims ósóma
í himneskan dýrðarljóma.
6.
Mjög lítil miskunn sést,
menn hafa kærleiks brest,
okur og ótrú kalda
öngva synd margir halda,
allfáir um þá skeyta
sem ölmusunnar leita.
7.
Sól drottins sést nú bleik
sem gull það liggur í reyk,
blómstur um álfur allar
er fölt sem gamlir kallar,
ár hvert ber ánauð stranga,
öfugt vill margt fram ganga.
8.
Nú dregur fjúk og frost
úr fénaði allan kost,
oft koma ísar og snjóar,
óár til lands og sjóar.
Sumarið, sem menn kalla,
sjást nú fuglarnir valla.
9.
Allt hafði annan róm
áður í páfadóm,
kærleikur manna á milli,
margt fór þá vel með snilli.
Ísland fékk lofið lengi,
ljótt hér þó margt fram gengi.
10.
Guðhrætt hér flest var fólk
firrt þó guðs orða mjólk
fiskalag, fuglaveiði,
um fjöll, við sjó og heiði,
er skráð í annáls letri,
Ísland var Noreg betri.
11.
Kirkjur og heilög hús
hver maður byggði fús,
glóaði á gullið hreina
grafnar bríkur og steina,
klerkar á saltara sungu,
sveinar og börnin ungu.
12.
Lénsfénu ólust á
óríkra börnin smá,
nú eru þau öll á róli,
einu fæst varla skóli,
ef óðul að erfðum bæri
öll þau til kennslu færi.
13.
Allt skrif og ornament
er nú rifið og brent,
bílæti Kristi brotin
blöð og líkneski rotin,
klukkur kólflausar standa,
kenning samt fögur að vanda.
14.
Frek er nú tolla tekt,
tvöföld þar lögð við sekt,
hús drottins hrörna og falla,
hrein eru stundum varla,
klauftroðnar kúabeitir
eru kristinna manna reitir.
15.
Er það ei aumt að sjá,
þá einn kristinn fellur frá,
hann jarðast eins og hræið
án söngs, sem fuglar dæi,
asnar ofan á ganga
upp úr jörð beinin stanga.
16.
Þá goðanna villan var
vissu ei af guði par,
heiðnir sér hauga gjörðu,
höfðu sín fylgsni í jörðu,
grófu þar granna fróma
gerðu þeim meiri sóma.
17.
Alls konar eymd og stríð
angrar þeim kristinn lýð,
heilagt guðs orð þó hljóðar,
hér fylgja bækur góðar,
allfáir um þær sinna,
oss vill svo heimurinn ginna.
18.
Heimurinn að þeim hlær,
sem heilaga vitran fær,
dreissugir djöflar hneigja
draumana, sem menn segja.
Mig skal því ekki mæða
margt um sjónirnar ræða.
19.
Jóhannes evangelist á
einn var guðsmaður sá,
Páll og postular snjallir,
prófetar drottins allir
sínar vitranir sögðu,
sannleiknum ei við þögðu.
20.
Drottinn dýrðar kom þú
dóminn að halda nú,
höfðinginn heims er að glíma,
hefur þó stuttan tíma,
börn þín með breyskleiks anda
brögðum hans ei við standa.
21.
Jafnan þín heilög hönd
hefur nú mína önd
frá veraldar villuslóðum
verndað með englum góðum,
og fyrir þeim óvin illa,
sem öllu gerir að spilla.
22.
Eg hef vel sjötíu ár
um Ísland ráfað krár,
lifað á litlu brauði
lafað við kýr og sauði,
ef önnur eins til falla,
Íslands mun gæðum halla.
23.
Guð minn, eg þakka þér,
þú hefur verið hjá mér
með aðstoð engla þinna
til ellidaga minna
og mér frá móðurlífi
mörgu forðaðir kífi.
24.
Guð blessi lögin lands
sem liggja í faðmi hans,
kóng vorn og klerka snjalla,
kristnina og valdsmenn alla,
biskupum báðum í landi
blessun guðs yfir standi.
25.
Drottinn þeim ljá þitt lið
legg til, hvað þurfa við.
Svo batist lönd og lýðir
létti svo hörðu stríði,
svo að andskotinn illi
akri þínum ei spilli.
26.
Þá heimur og holdið spillt
hafði mig frá þér villt,
þín náðargæskan góða
gerði mér til sín bjóða,
mig vafðir í veikleik mínum
vængjunum undir þínum.
27.
Ótal mín syndasekt
sært hefur heldur frekt,
hefur þú herrann góði
hellt þar inn þínu blóði,
þú lést svo unun alla
yfir mig auman falla.
28.
Settu þar glyrnur grár
í græðarans píslarsár,
helvítis hundurinn rotinn,
haus þinn er sundur brotinn.
Sitt dramb hlaut Djöfull að pyngja
drottni má eg lof syngja.
29.
Hann átti ei á því von,
að eilífur guðs son
mundi manndómi klæðast,
af meyju hreinni fæðast.
Helvíti á að herja,
hans haus í sundur að merja.
30.
Ligg eg á herðum hans
heim til míns föðurlands
að ná þeim eilífa auði,
sem af mér sveik hinn snauði
djöfull með drambið kæna
er dýrð guðs vildi ræna,
31.
Svei verði Satan þér,
eg særi þig burt frá mér,
haf þig til heljar ranna
í hópinn þinna granna,
þú skalt ei, grimmdar grýta,
frá guði mig auman slíta.
32.
Öll bein og æðar í mér,
ástkæri guð, fyrir þér
skulu til fóta falla
fagnandi syngja og kalla:
lof sé lausnara mínum,
sem leysti mína sál frá pínum.
33.
Drottinn, þig loftin löng
lofi með fagran söng,
helvítin öll sig hneigi,
hver tunga amen segi,
himinn, loft, hafið og grundir,
hvað þar er á og undir.