Heilagur andi Guðs míns góða | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Heilagur andi Guðs míns góða

Fyrsta ljóðlína:Heilagur andi Guðs míns góða
bls.77–80
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) ferkvætt AAAo
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar
Heilagur andi Guðs míns góða
Fyrsti psalmur. Út af nafninu Jesú.
Með tón: Sæll minn Jesú Christe kæri etc.

1.
Heilagur andi Guðs míns góða
gjöri so mína tungu fróða
hún kunni þér til lofs að ljóða,
líknsamasti drottinn minn.
2.
Eftir þér mig lát þú langa,
á lífsins vegi kenn mér ganga
so eg megi þann fögnuð fanga
að fylgja þér eftir, Jeaú minn.
3.
Þú ert vor vegur í himnahæðir,
helgast oss þitt orðið fræðir,
glöggt við oss í ritning ræðir,
ráðhollasti Jesú minn.
4.
Lifandi vatns hinn besti brunnur,
brautin lífs og sannleiks munnur,
af sjálfs þíns orði sért mér kunnur,
signaður herra Jesú minn.
5.
Guð ertu af Guði sönnum
gefinn til lausnar töpuðum mönnum,
daglega þína dyggð vér könnum,
dásamasti Jesú minn.
6.
Ljós ertu af ljósi skæru,
í ljósi þínu mjög frábæru,
ljósið sjáum vér lífs með æru,
lofaður sértu, Jesú minn.
7.
Sá sem að þér trúir og treystir,
tryggðin dýr, sem lýði leystir,
með þínum anda þann hughreystir,
þýður og blíður Jesú minn.
8.
Sá hinn sami, þó sofni úr heimi,
særist ei af kvalanna keimi,
sál hans trúi eg sjálfur geymi
signaður herra Jesú minn.
9.
Hvör hann lifir í trúnni traustur
títt og í góðum verkum hraustur
hann mun byggja himnaklaustur
hjá þér sjálfum, Jesú minn.
10.
Sætleik ber af sykri öllu
þitt signaða nafn, á hvört vér köllum,
eilífa vist í himnahöllum
hefur útvegað Jesú minn.
11.
Fyrirgef þú mér löstu leiða,
líka vil eg þig feginn beiða
lífsins braut mér gjör þú greiða,
græðari blíður, Jesú minn.
12.
Þessu veit eg þú munt játa
og það ei mér á móti láta;
af því gjörir sig önd mín káta
í þér sjálfum, Jesú minn.
13.
Allt eins er og eg þig sjái,
einvaldsherrann kraftahái,
með trúarhönd og til þín nái,
tignardýrstur Jesú minn.
14.
Þú gefur mér þitt sakleysi
þá eg skal frá veraldarhreysi,
beint eg minn þá bústað reisi
hjá byggðunum þínum, Jesú minn.
15.
Þínu réttlæti þú mig klæðir,
þar með alla meinsemd græðir,
dags mig efsti dómur ei hræðir,
duga muntu mér, Jesú minn.
16.
Dýrð sé Guði, drottni mínum,
dýrstum föður á himnum fínum,
með eingetnum syni sínum
sem er herra, Jesú minn.
17.
Huggunarstyrk síns heilags anda
herrann gefi mér lýðs og landa
so eg kunni staðfast standa
stöðugur hjá þér, Jesú minn.
18.
Bænheyr þú mig, blíður og sætur,
bænheyr þú mig, Guð ágætur,
bænheyr þú þitt barn sem grætur,
bænheyr þú mig, Jesú minn.
Amen.
(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 3, bls. 77–80. Í útgáfunni er sálmurinn prentaður eftir elsta varðveitta handritinu JS 208 8vo, bls. 1–5. Hann er auk þess varðveittur í tveim öðrum handritum sem vitað er um, JS 272 4to I, bl. 151r–152r, og JS 272 4to II, bl. 367v–368v. Hér er texta útgáfunnar fylgt út í hörgul)