Vögguvísur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Vögguvísur

Fyrsta ljóðlína:Það var fæddur krakki í Koti -
bls.533
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) fer- og þríkvætt AABcBc
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1899
1.
Það var fæddur krakki í koti –
kúrði sig í vögguskoti
bláeygur með bros á munni
businn, efni manns,
gestur, sem að enginn unni
utan mamma hans.
2.
Mánaljós um mjallir blakti.
– mamma svaf en Ísland vakti,
fóstran hans og vörn á vegi,
vögguljóðið kvað.
– Ef þú kannt það kvæði eigi,
kveða skal ég það:
3.
„Byrgðu aftur, anga-tetur!
augun blá eins lengi og getur –
hulinn óður hlær í hvarmi,
hendingar á vör.
Sofðu, skáld í barnsins barmi,
blint um eigin kjör.
4.
Ólánsbörnum óðs og ljóða
engin laun hef ég að bjóða.
Fólkið mitt sem fitar sauði,
fiskinn ber í hlað,
vinnur eitt að björg og brauði,
búrin fyllir það.
5.
Lítils virði ljóðin telur
lýður sem að Geysi selur,
– naumast má hann neinu eyða
nema fyrir mat –
*þúfnasláttur, víkurveiðar
varla fætt sem gat.
6.
Útföl myndu ýta þorra
ættarbönd við Sögu-Snorra,
ef þau væru virt til króna,
vegin út og seld.
– Mín er heimsfrægð heiðri gróna
hans við nafn þó felld.
7.
Þér er frjálst að syngja og svelta
samt ef vilt, og hugsjón elta
þá, sem heiðrar, hyggur fagra
heimurinn með þér –
vinna launin, lýðsins magra
lof, þá búið er.
8.
Lúllum. – Barn, að líða og sakna
láttu skáldið aldrei vakna!
Fóstran hefur, vil ég vona,
við þig kveðið nóg.
– Fleiri gáfur svæfði ég svona –
sofðu! Korríró!“