Stefjahreimur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Stefjahreimur

Fyrsta ljóðlína:Frá geimi ljóss og lits og hljóms
bls.107–108
Bragarháttur:Sjö línur (o tvíliður) Ferkvætt:aBaBccB
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1906

Skýringar

Fyrsta ljóðið í ljóðabókinni Hafbliki.
Aðeins lokaerinidið er prentað í Skólaljóðum.
1.
Frá geimi ljóss og lits og hljóms
að lífsins kjarna bylgjur falla,
sem skálar ilms af blöðum blóms,
er barmi’ að eigin vörum halla,
sem bergrödd, er sig hrópar heim,
sem himindögg í jarðar eim,
er jurtir aftur að sér kalla.
2.
En sem ein alda’ hins innra manns
vill eðli hans til sjálfs sín knýja,
svo leiðir önnur anda hans
sem útsog – til að þrá hið nýja.
Þar merkjast sömu máttug lög,
sem magna sólarhjartans slög, –
en láta hnöttinn fang þess flýja.
3.
Svo skapast allt, jafnt orð sem dáð
við iðugeislann, fagra og hlýja.
Og lífstréð rís í röðuls náð
frá rúslum vona – í hallir skýja.
Og hátt til lofts, sem lauf þess nær
og lágt til djúps, sem rót þess grær,
skal blað hvert stofnsins vexti vígja.
4.
Og allt er fest í formsins bönd,
jafnt fegurð hauðurs, lofts og voga.
Í einför fljóts um eyðilönd
er eins og leikur strengs við boga, –
og hljómur óðs í stormsins straum;
í strandar þögn, í lognsins draum,
er undirspil af aflsins loga.
5.
Ó, hulda vald í manni og mold,
sem málminn sjálfan slær með eldi.
Ó, kærleikshvöt í hafi og fold,
sem hismið reisir lífs í veldi.
Þá heimur giftist heli og gröf
gaf himinn þessa morgungjöf –
er lýsir öllu að ysta kveldi.
6.
Og list – sem göfgar málsins mynd
og mótar sál af steini köldum,
sem huggar augað lits við lind
og leikur gleði í sorgar tjöldum;
sem hreinsar dapra hreimsins tón, –
hún hjúpar dauðans voðasjón,
svo lognborð skín á afgrunns öldum.
7.
Og feðratungan tignarfríð, –
hver taug mín vill því máli unna;
þess vængur hefst um hvolfin víð,
þess hljómtak snertir neðstu grunna. –
Það ortu guðir lífs við lag;
ég lifi’ í því minn ævidag
og dey við auðs þess djúpu brunna.
8.
Mitt verk er, þá ég fell og fer,
eitt fræ, mitt land, í duft þitt grafið;
mín söngvabrot, sem býð eg þér,
eitt blað í ljóðasveig þinn vafið;
ein insta hræring hugar míns,
hún hverfa skal til upphafs síns,
sem báran – endurheimt í hafið.