Ónefnt ljóð | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Ónefnt ljóð

Fyrsta ljóðlína:Eilíflega á ég þig
Heimild:Faxi.
bls.103
Viðm.ártal:≈ 0
Eilíflega á ég þig
öllum hestum fremur
þú munt Neisti þekkja mig
þegar yfrum kemur.

Og um Gest Guðmundsson mann sinn og ferðalag hans það sem enginn fær flúið ásamt þá viðræðum við húsráðendur þar uppi:

1.
Mér finnst ég hafa á stuttri stund
stikað vegin langan
en ég vil bæði hest og hund
hafa síðsta áfangann.
2.
Þótt Pétur sé með blek og blað
og býti út skuldalöppum
ég ætla samt að hleypa í hlað
að himnaríkiströppum.
3.
Skyldi ég þurfa að standa um stund
á stétt í veðri hörðu?
Ég fékk alltaf beina og blund
á bæjum niðri á jörðu.
4.
„Gakktu í bæinn Gestur minn“
guðsmóðirin talar.
„Í búrinu ég bita finn
og baunir kvörnin malar“
5.
Ferðamannsins fagnar lund.
Að fleiru þarf að hyggja:
„Ég er hér með hest og hund
sem hlýju líka þiggja“.
6.
„Hundinn skal ég hýsa fús
hann má liggja á palli
piltur fer með hest í hús
hey er þar á stalli“.
7.
Í anddyrinu ylinn finn
en þar stendur dóni.;
„Þú skuldar hérna maður minn
og margir þar á Fróni“.
8.
„María, ég mann hef hitt
mig er um skuld að klaga“
„Ég skal biðja barnið mitt
að bæta það og laga“.
9.
Rúm er búið brauð er sótt
batnar þreyttra hagur.
„Súptu kaffið, sofðu rótt
og svo kemur bjartur dagur“.