Hrifinn ég stari | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Hrifinn ég stari

Fyrsta ljóðlína:Hrifinn ég stari á ljósanna loga
Heimild:Glæður.
bls.28
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Hrifinn ég stari á ljósanna loga
sem leiftrandi titrar á himinsins boga
er geislunum stráir um víkur og voga
og vegsamar skaparans almættisdýrð
sem aldrei mun verða með orðgnóttum skýrð.
2.
Tindrandi stjörnur á himninum heiða
helþrungnu myrkrunum viljið þið eyða
örþjáðu sálirnar laða og leiða
í lifandi von yfir hverfleikans höf
lyfta þeim hátt yfir harma og gröf.
3.
Þið eruð „útvarp“ hins eilífa háa
algóða föður, sem verndar hið lága.
Auglýsið vald hans þeim veika og smáa
voldugir tónar, þótt allt virðist hljótt
lýsandi vitar um lágnættið rótt.