Hverfur í vestur | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Hverfur í vestur

Fyrsta ljóðlína:Trausta fleyið flytja má
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Trausta fleyið flytja má
fölva mey á bárum,
kaldri eyju ísa frá
út í reginhafið blá.
2.
Nú í báru á söltum sjá
sólin klára hnígur,
líkt og tárið ljúfa má,
er líður sárum augum frá.

3.
Hverfur tindur, hverfur bær,
hverfur í skyndi dalur,
hverfur lindin kristaltær,
hverfur yndi fjær og nær.

4.
Kveð ég sprund og korðaver,
kveð ég lundinn blóma;
kveð ég grund, sem kærst er mér,
kveð ég stund, sem farin er.