Án heitis - vísur um basl og elli | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Án heitis - vísur um basl og elli

Fyrsta ljóðlína:Valt ef gerist gengi mér
Heimild:Són.
bls.11 bls. 121
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Kort með nesti, krappan skó,
klafa festar bar ég.
Lengst og mest mig þreyttu þó
þeir, sem bestur var ég.
2.
Af mér fokið fiðrið er
felst í þoku ströndin.
Flugi lokið læt ég hér
líkt og „pokaöndin.“
3.
Ekki skulda ég öðrum neitt,
allir guldust tollar.
Þó eru huldir bak við breitt
brosið kuldapollar.
4.
Uppí skuldir eg hef greitt
öðrum duldar slettur.
Þó eru huldar bak við breitt
brosið – kuldagrettur.
5.
Valt ef gerist gengi mér
gleymast sérhver kynni.
Maður er því oftast hér
einn í veröldinni.
6.
Minn er óður metinn lágt
meira gróði og skylda.
Hefur slóði aldrei átt
aurasjóði gilda.
7.
Margt vill stríða manni gegn
mæða hríð og vetur.
Þessi tíð er mér um megn
mætti líða betur.
8.
Ég er orðinn eins og skar
illa þoli hríðar
og vitanlega verð ég snar-
vitlaus innan tíðar.