Ósk og ætlun | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Ósk og ætlun

Fyrsta ljóðlína:Ég vildi ég yrði ungur
Viðm.ártal:≈ 0
Flokkur:Skáldsþankar
Ég vildi ég yrði ungur
um alla mína daga
á göngu um grjót og klungur
og græna og slétta haga. -
Að hlæja hjartanlega
og hindranirnar lækka
og titra á víxl af trega
er tími manns að stækka.

Ég ætla að vera ungur
um alla mína daga
en aldrei elliþungur -
það er svo létt með Braga
svo létt að lesa og skrifa
og líka að spyrja og efa
og alltaf létt að lifa
og létt að fyrirgefa.