Stökur frá Stafnsrétt | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Stökur frá Stafnsrétt

Fyrsta ljóðlína:Bliknar margt og bleik er grund
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Bliknar margt og bleik er grund,
blómaskart í valnum,
á þó hjartað óskastund
innst í Svartárdalnum.
2.
Haustið býður öllum oss:
úti er blíða og friður.
Safnið líður líkt og foss
Lækjarhlíðar niður.
3.
Hér er líf og líka fjör
lagleg víf og jeppar.
Heyrast gífuryrði ör
óðir rífast seppar.
4.
Þar er sparkað, kjaftað, kýtt
karlar þjarka um hross og skjátur.
Þar er slarkað, þjórað, spýtt.
Þá er Marka-Leifi kátur.
5.
Svona bras er siður forn:
Sumir hrasa og slaga,
taka í nasir tóbakskorn
tappa úr glasi draga.
6.
Miðla eg tári á mannfundi
manni náradregnum.
Þessi árans and . . . . .
ætlar að klára úr fleygnum!
7.
Senn að völdum svefninn fer
sveit í tjöldin skríður.
Svo er öldin önnur hér
er á kvöldið líður. –