Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna að Reykjum í Hrútafirði | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna að Reykjum í Hrútafirði

Fyrsta ljóðlína:Heiðra skal happadag
bls.45-48
Viðm.ártal:≈ 1975
Flokkur:Hátíðaljóð
Heiðra skal happadag
hús er af grunni reist.
Erjuðu af alúð hér
áhugamenn.
Gleðjumst og þökkum það
þetta er mikil stund.
Blómgist vort byggðasafn
bætist við enn.

Kambanna klið ég man
kátlegan snælduþyt
háværa hesputréð
höföld er þræddu glit.
Róandi rokkhljóð
raulaði kvöldin löng
meðan náfrétt napra
norðanátt söng.

Vetur er kvaddur
vorannir kalla að
kláran mylur kekki.
Kannastu við það?
Hér er trog og taðkvörn
tímarnir breytast ögn.
Fjallagrösin heilla
og fjallanna þögn.

Sumar með græna grund
glitrar á blómafjöld
glóa á gulli brydd
góðviðriskvöld.
Fitlar við finnung
flugbeittur Torfaljár
orfhólkur leysti af
ljábönd í ár.

Girtu vel á Grána
góðan veldu reiðing
felldu nú fallega
framanundirlag.
Bæjardyrnar opnast
afi að skýjum gætir:
„Ekki er víst hann rigni
að ráði í dag.“

Hrífa, létt í hendi
heyflekkinn saman dreif.
Bráðum er búið
að blómstra töðuvöll.
Miklu er af lokið
ánægður er bóndinn.
„Kvöldverður bíður
komið þið nú öll.“

„Signdu þig, sveinstauli
syfjaður ertu.
Blessaður lestu nú
bænirnar fljótt.
Þakkaðu Guði
sem gaf þér pabba og mömmu.
Veri hann skjöldur
og vernd þín í nótt.

Ró er yfir bænum
hvílast lúnir limir.
Annríki að morgni
endurtekur sig.
Stekkur yfir túngarðinn
Stórhyrna gamla.
. . . „ilmurinn af töðunni
á nú við mig.“

Heill sé þér, Húnaþing
héraðið fríða
átt þú sem áður
óskir og þrár.
Verði réttlætið
vegur þinn og sómi.
krýnist þinn hagur
um komandi ár.


Athugagreinar

Umfjöllun um Byggðasafnið: http://www.landpostur.is/is/frettir/byggdasafn-hunvetninga-og-strandamanna, http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3896811, ritgerð um safnið: http://skemman.is/handle/1946/15333
Ljóðið er einnig á Skagfirðingavef með orðamun.